Enn stórsigur og grannaslagur í undanúrslitum

Alyssa Thomas lék frábærlega fyrir bandaríska liðið í morgun og …
Alyssa Thomas lék frábærlega fyrir bandaríska liðið í morgun og brýst hér að körfu Serbanna. AFP/William West

Bandarísku konurnar unnu enn einn stórsigurinn á heimsmeistaramótinu í körfubolta í Sydney í Ástralíu í morgun og mæta nú nágrönnum sínum frá Kanada í undanúrslitum mótsins.

Bandaríkin sigruðu Serbíu á afgerandi hátt, 88:55. Fyrsti leikhluti var reyndar jafn en síðan stakk bandaríska liðið af og var yfir í hálfleik, 50:33. Kelsey Plum var stigahæst með 17 stig, A'Ja Wilson skoraði 15 stig og Alyssa Thomas var með 13 stig, tók 14 fráköst og átti 7 stoðsendingar. Yvonne Anderson skoraði 14 stig fyrir Serba.

Kanada sigraði Púertóríkó 79:60 eftir að hafa verið yfir í hálfleik, 44:23. Kia Nurse skoraði 17 stig fyrir Kanada og Bridget Carleton 15. Arella Guirantes skoraði 19 stig fyrir Púertóríkó.

Í hinum undanúrslitaleiknum mætast Ástralía og Kína. Ástralir sigruðu Belga örugglega, 86:69, og Kínverjar lögðu Frakka að velli, 85:71. Fulltrúar Evrópu á mótinu eru því allir úr leik.

Undanúrslitaleikirnir fara fram í fyrramálið klukkan sjö og hálftíu að íslenskum tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert