Pavel leggur skóna á hilluna

Pavel Ermolinskij grátklökkur eftir að Íslandsmeistaratitillinn var í höfn með …
Pavel Ermolinskij grátklökkur eftir að Íslandsmeistaratitillinn var í höfn með Val síðastliðið vor. mbl.is/Kristinn Magnússon

Körfuknattleiksmaðurinn Pavel Ermolinskij hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna eftir afskaplega farsælan feril.

Þetta staðfesti hann í aðsendri grein í nýjasta blaði Skessuhorns, þar sem Pavel ritar kveðju til Borgnesinga, en hann hóf feril sinn ungur að árum hjá Skallagrími þar í bæ.

Þar lék hann til að mynda um skeið með föður sínum Alexander, en fjölskyldan flutti frá Rússlandi til Íslands þegar Alexander bauðst að spila hér á landi árið 1992.

Pavel, sem er 35 ára gamall, lauk ferlinum með Val þar sem hann hjálpaði liðinu að vinna sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil í 39 ár.

Í ágúst staðfesti hann að hann yrði ekki áfram hjá Val á tímabilinu sem er að fara í hönd og nú hefur Pavel tekið af allan vafa um að ferli hans sem leikmanns sé lokið.

Þakkar Borgarnesi fyrir

„Alla tíð hefur karfan staðið mér nálægt og verið minn allra besti vinur. Körfubolti var ástæðan fyrir því að fjölskylda mín kom til landsins frá Rússlandi og hann varð seinna meir atvinna mín í 20 frábær ár.

Nú er komið að því að ég hef ákveðið að segja skilið við þessa íþrótt sem leikmaður. Ég hef átt nokkur rifrildi við körfuboltann gegnum tíðina en hann brosti alltaf þegar ég kom skömmustulegur að biðja hann afsökunar.

Hann tók þá bara utan um mig og bauð mér upp á endalaus tækifæri til þess að búa til frábærar minningar.

Á þessum tímamótum verð ég enn meðvitaðri um að síðustu tveir áratugir í lífi mínu hefðu farið á allt annan veg ef að það væri ekki fyrir Borgarnes og móttökurnar sem ég fékk þar, þá 5 ára gamall. Takk Borgarnes,“ skrifaði Pavel meðal annars í fallegri kveðju sinni í Skessuhorni.

Íslandsmeistari átta sinnum

Á farsælum ferli varð Pavel Íslandsmeistari samtals átta sinnum, sjö sinnum með KR og einu sinni með Val.

Hann lék þá sem atvinnumaður á Spáni með Vichy, Málaga, Axarquia, Ciudad de Huelva, La Palma og Cáceres um átta ára skeið og með Sundsvall Dragons og Norrköping Dolphins í Svíþjóð um tveggja ára skeið.

Pavel var þá lykilmaður í íslenska landsliðinu um langt árabil og lék með því á EuroBasket árin 2015 og 2017, sem voru fyrstu stórmótin sem íslenska karlalandsliðið í körfuknattleik tók þátt í.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert