Stabæk með Pálma Rafn í sigtinu

Pálmi Rafn Pálmason er í sigtinu hjá Stabæk.
Pálmi Rafn Pálmason er í sigtinu hjá Stabæk. mbl.is/Árni Sæberg

Pálmi Rafn Pálmason, landsliðsmaður í knattspyrnu úr Val, er undir smásjánni hjá toppliði norsku úrvalsdeildarinnar, Stabæk, og forráðamaður félagsins, Lars Bohinen, staðfestir það.

„Tom Schelvan fór á leik á Íslandi og sá Pálma spila en meira vil ég ekki segja," sagði Bohinen við Asker og Bærums Budstikke, staðarblaðið í Bærum þar sem Stabæk hefur aðsetur.

Nettavisen segir að það muni kosta Stabæk um þrjár milljónir norskra króna, 45 milljónir íslenskra króna, að kaupa Pálma Rafn af Val. Netmiðillinn kveðst hafa það eftir áreiðanlegum heimildum á Íslandi að Stabæk sé búið að skoða Pálma gaumgæfilega.

Veigar Páll Gunnarsson er í lykilhlutverki í sóknarleik Stabæk sem er með fimm stiga forystu á toppi norsku úrvalsdeildarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert