Valur fær 45 milljónir frá UEFA

Í kreppunni streyma nú peningar frá UEFA, Knattspyrnusambandi Evrópu, til íslenskra félaga og langmest til þeirra sem tóku þátt í mótum á vegum sambandsins á þessu ári. Valsmenn fá stærstu sneiðina af kökunni.

Af 126 milljónum króna sem renna frá UEFA til íslensku félaganna fá Valsmenn 45 milljónir króna, fyrir þátttöku í einni umferð í forkeppni Meistaradeildar Evrópu, og fyrir Íslandsmeistaratitilinn 2007.

FH fær 24 milljónir króna fyrir að leika í tveimur umferðum UEFA-bikarsins í haust en FH-ingar slógu út Grevenmacher frá Lúxemborg og léku síðan við Aston Villa.

Skagamenn fá 12 milljónir fyrir þátttöku í einni umferð í UEFA-bikarnum.

Fylkismenn fá 9 milljónir fyrir þátttöku í einni umferð í Intertoto-keppninni.

Afgangurinn skiptist á milli félaga í úrvalsdeild og 1. deild karla, þeirra sem hafa innleitt leyfiskerfi og hafa samþykkta uppeldisstefnu, og renna þær upphæðir til barna- og unglingastarfs viðkomandi félaga.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert