Rannsókn á matareitrun Tottenham-manna

Robbie Keane dapur í bragði í leikslok en hann var …
Robbie Keane dapur í bragði í leikslok en hann var einn þeirra sem veiktust í fyrrinótt. Reuters

Rannsókn er hafin á ástæðu þess að tíu leikmenn enska knattspyrnufélagsins Tottenham Hotspur fengu matareitrun í fyrrinótt fyrir leikinn mikilvæga gegn West Ham í lokaumferð ensku úrvalsdeildarinnar sem fram fór í gær. Tottenham tapaði leiknum, 2:1, og missti þar með af fjórða sæti deildarinnar og möguleikanum á að komast í Meistaradeild Evrópu.

Sýni úr mat hafa verið tekin og send til sérfræðinga og taka forráðamenn Marriott-hótelsins í London fullan þátt í rannsókninni, en þar dvaldi lið Tottenham fyrir leikinn. Engin ákæra hefur verið lögð fram.

Tottenham óskaði eftir því að fá leiknum frestað um einn sólarhring. Stjórn úrvalsdeildarinnar mat stöðuna þannig, að Tottenham væri með nægilega marga leikmenn til að stilla upp liði og hafnaði beiðninni, og bauð félaginu að seinka leiknum um tvo klukkutíma. Forráðamenn Tottenham ákváðu þá að mæta til leiks á réttum tíma, minnugir þess að árið 1997 var Middlesbrough svipt þremur stigum fyrir að koma ekki til leiks á tilskyldum tíma í deildinni.

Meðal þeirra sem veiktust voru Michael Dawson, Edgar Davids, Michael Carrick og Robbie Keane en þeir tóku síðan allir þátt í leiknum gegn West Ham. Martin Jol, knattspyrnustjóri Tottenham, kveðst ekki telja að eitrað hafi verið fyrir sínum mönnum, en ýmsar samsæriskenningar um slíkt voru komnar í gang hjá stuðningsmönnum félagsins í gær.

Sjá einnig enski.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert