Svíþjóð gjörsigraði Suður-Kóreu

Svíar fagna stórsigrinum gegn Suður-Kóreu í morgun.
Svíar fagna stórsigrinum gegn Suður-Kóreu í morgun. AFP

Sænska kvennalandsliðið í handknattleik átti ekki í nokkrum einustu vandræðum með það suðurkóreska þegar liðin mættust í fjórðungsúrslitunum á Ólympíuleikunum í Tókýó í morgun.

Svíar náðu sex marka forystu snemma leiks, 8:2, og eftir það varð ekki aftur snúið. Staðan í hálfleik var 21:13 og bættu Svíar enn á kvalir Suður-Kóreukvenna í síðari hálfleiknum.

Vannst að lokum gífurlega öruggur níu marka sigur, 39:30, og var forystan mest 14 mörk, 39:25, áður en Svíar slökuðu á klónni og Suður-Kórea skoraði síðustu fimm mörk leiksins.

Svíþjóð flýgur því í undanúrslitin þar sem liðið mun mæta sigurvegurunum úr einvígi Frakklands og Hollands.

Markahæstar í liði Svíþjóðar voru Jamina Roberts, Carin Strömberg og Linn Blohm, allar með sex mörk. Johanna Bundsen stóð sig vel í markinu og varði 11 af 30 skotum sem hún fékk á sig, og var þannig með 37 prósent markvörslu.

Markahæst í leiknum var Suður-Kóreukonan Kan Kyung-min með átta mörk auk þess sem Kim Jin-yi skoraði sjö mörk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert