Kunnugleg andlit í listhlaupi

Þuríður Björg Björgvinsdóttir keppir í senior ladies-flokknum og er að …
Þuríður Björg Björgvinsdóttir keppir í senior ladies-flokknum og er að snúa til baka eftir meiðsli. Sportmyndir.is

Keppni í listhlaupi á skautum á WOW Reykjavik International Games hefst í Skautahöllinni í Laugardal á föstudaginn. Mótið er á lista Alþjóðaskautasambandsins og gefur stig inn á alþjóðleg meistaramót eins og t.d. heimsmeistaramót. Erlendir keppendur eru 30 talsins frá níu löndum: Svíþjóð, Slóvakíu, Suður Afríku, Filippseyjum, Hollandi, Bretlandi, Frakklandi, Ástralíu og Azerbaijan. Íslenskir keppendur verða 69 og er mótið mikilvægur liður í undirbúningi níu þeirra fyrir Norðurlandamótið sem fer fram í Finnlandi um næstu helgi.

Það vekur athygli að nokkur kunnugleg andlit munu mæta til keppni um helgina en fjögur af þeim sem voru í verðlaunasætum á mótinu í fyrra kunna greinilega vel við sig á Íslandi og eru aftur á meðal keppenda í ár. Morgan Flood frá Azerbaijan sigraði í junior ladies-flokknum í fyrra og mætir til keppni í senior flokki í ár og Naomie Mugnier frá Frakklandi sem sigraði í advanced novice girls árið 2017 keppir í junior-flokknum í ár. Yann Frechon frá Frakklandi sem sigraði í junior men í fyrra mætir aftur í ár og freistar þess að verja titil sinn. Þá mætir Yamoto Rove, ein helsta vonarstjarna Filippseyja einnig annað árið í röð í junior men-keppnina.

Ísland á tvo keppendur í senior ladies-flokknum, þær Evu Dögg Sæmundsdóttur og Þuríði Björg Björgvinsdóttur. Eva Dögg hefur keppt mikið á þessu tímabili en Þuríður er að koma aftur inn eftir meiðsl. Það verður spennandi að sjá hvernig þeim gengur gegn stúlkunum frá Ástralíu, Azerbaijan og Filippseyjum. Í junior ladies keppa 7 íslenskar stúlkur, þar á meðal Kristín Valdís Örnólfsdóttir, skautakona ársins 2017, og Marta María Jóhannsdóttir sem varð Íslandsmeistari í flokknum í nóvember síðastliðnum. Sex íslenskar stúlkur taka þátt í advanced novice girls-flokknum.

Listi yfir keppendur i listhlaupi á skautum

Dagskrá keppninnar í listhlaupi á skautum

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert