Sjö íþróttagreinar á dagskrá RIG í dag

Frá badminton keppni RIG 2023 í TBR
Frá badminton keppni RIG 2023 í TBR Ljósmynd/Hafsteinn Snær

Keppni er hafin á fyrri laugardegi Reykjavíkurleikanna í dag, en flestar greinar fara fram í Laugardalnum. Keppt verður í sjö íþróttagreinum og hægt að fylgjast með þeim í streymi á RIG.IS/LIVE.

Júdó

Júdókeppnin fer fram í dag í Laugardalshöll, undankeppnin fer fram fyrir hádegi þar sem keppt verður um að komast í úrslitin sem eru milli 13:00-15:00 og verða sýnd í beinni á RÚV. Margir af bestu íslensku keppendunum taka þátt eins og Árni Pétur Lund, Helena Bjarnadóttir og Aðalsteinn Björnsson. Sterkir keppendur komu á mótið frá Tékklandi og Frakklandi. Ekki komust þó allir til landsins vegna raskana á flugsamgöngum en einn keppandi lenti klukkan tvö í nótt og var mættur á dýnuna klukkan níu. Frekari upplýsingar um júdó má finna hér

Crossfit

Liðakeppnin í Crossfit fer fram í Crossfit Reykjavík klukkan 15:00-17:00. Keppnin er liðakeppni þar sem þrjú karlalið og þrjú kvennalið keppa sín á milli. Annie Mist og Bergrós Björnsdóttir eru saman í liði, en báðar kepptu þær á Heimsmeistaramótinu í Crossfit á síðasta ári, Bergrós keppti í unglingaflokki. Annie Mist er tvöfaldur heimsmeistari í Crossfit og það er alltaf gaman að sjá hana keppa á heimavelli. Crossfit verður í beinni á RÚV og hefst klukkan 15:00. Frekari upplýsingar um mótið og keppnisæfingarnar má finna hér.

Sund

Dagur tvö í sundkeppni RIG hófst með undankeppni kl. 9:30 í morgun. Úrslitin hefjast klukkan 16:30 þar sem keppt verður í nokkrum vegalengdum í baksundi, bringusundi og skriðsundi. Búast má við að Anton Sveinn McKee keppi í úrslitum í 100m bringusundi kl. 17:22. 

Badminton

Badminton keppnin heldur áfram þar sem Íslendingar halda áfram að gera góða hluti. Í tvennd­ar­leik munu Kristó­fer Darri og Drífa spila við par frá Englandi, Daní­el og Sig­ríður spila við par frá Dan­mörku og þá munu Davíð Bjarni og Arna Kar­en spila við par frá Þýskalandi. Tvennd­ar­leik­ir hófust kl. 09.00. Í tvíliðal­eik kvenna munu Arna Kar­en og Sig­ríður spila við par frá Sviss og Sól­rún Anna og Una Hrund spila við par frá Aser­baíd­sj­an. Tvíliðal­eik­ir kvenna hefjast kl. 12.30. Í tvíliðal­eik karla munu Kristó­fer Darri og Davíð Bjarni spila við par frá Englandi/​Jamaíka og Ró­bert Henn og Gabrí­el Ingi spila við par frá Úkraínu. Tvíliðal­eik­ir karla hefjast kl. 13.40.

Hægt er að fylgjast með úrslitum hér og streymi má finna á RIG.IS/LIVE.

Enduro hjól

Enduro hjólakeppnin fer fram í dag milli 13:00-16:00, og fer fram í Öskjuhlíðinni. Keppnirnar eru krefjandi líkamlega því það getur tekið 3-5klst að klára allann hringinn/leiðina.

Karate

Karate keppnin fer fram í Laugardalshöll frá klukkan 9:00 – 17:00. Fyrir hádegi verður keppt í kata og kumite hjá fullorðnum og eftir hádegi er keppni hjá 13-15 ára í kata og kumite. Miss Universe Iceland Hrafnhildur Haraldsdóttir mun veita verðlaun til sigurvegaranna. Hægt er að fylgjast með streymi af karatekeppninni hér.

Keila

Undankeppnin í keilu fer fram í dag í Keiluhöllinni í Egilshöll, margir þátttakendur eru skráðir til leiks en úrslitin fara fram þann 2. Febrúar. Frekari upplýsingar má finna hér. Þá er hægt að horfa á streymi hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert