Viðskiptabankarnir spá 0,5% stýrivaxtahækkun Seðlabanka Íslands

Seðlabanki Íslands.
Seðlabanki Íslands. Mbl.is/Brynjar Gauti

Greiningardeild KB banka spáir því að Seðlabanki Íslands muni hækka stýrivexti um 50 punkta, í 13,5%, í fyrramálið. Greiningardeild Landsbankans spáir 0,5%-0,75% hækkun stýrivaxta. Stýrivaxtaákvörðunin verður tilkynnt kl. 9. Fréttavefur Morgunblaðsins sagði frá því fyrr í dag að Glitnir spáði jafnmikilli stýrivaxtahækkun. Bloomberg fréttaveitan leitaði eftir spám níu aðila um ákvörðun morgundagsins og spáðu sex þeirra 50 punktum en þrír 75 punktum.

KB banki spáir því að Seðlabankinn muni aftur hækka vexti um 0,5% í næsta mánuði en í hálf fimm fréttum bankans segir að vaxtalækkunarferli bankans eiga eftir að hefjast á fyrsta ársfjórðungi næsta árs og að vextir verði komnir niður í 7% við byrjun annars ársfjórðungs 2008.

Fundur Seðlabankans á morgun er aukafundur sem Seðlabankinn tilkynnti um samhliða útgáfu ítarlegrar greiningar á verðbólguhorfum í ársþriðjungsritinu Peningamál þann 6. júlí.

Í Vegvísi Landsbankans kemur fram að athyglisvert sé hversu mikill áhugi er fyrir íslensku krónunni. „Það, að níu bankar skuli hafa skilað spá um stýrivaxtabreytingu á morgun, segir sína sögu. Í gjaldeyrisfréttum sænska SEB bankans í morgun er meðal annars fjallað um krónuna og spáð 75 punkta stýrivaxtahækkun á morgun.

Þar segir að Seðlabankinn hafi undanfarið gefið frá sér varnaðarorð sem megi túlka sem svo að vextir verði áfram hækkaðir stíft. Þessi varnaðarorð hafi fengið stuðning stofnana á borð við IMF og OECD. SEB spáir að stýrivextir nái hámarki í rétt yfir 14%.

Einnig telja sérfræðingar SEB að tölur um utanríkisviðskipti sem birtar verða í lok mánaðarins muni sýna að veikari króna og hærri vextir séu farnar að skila sér í lægri viðskiptahalla. Sem afleiðing á þessum þáttum mælir SEB með kaupum á krónunni," að því er fram kemur í Vegvísi Landsbankans.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK