Glitnir spáir óbreyttum stýrivöxtum

Þótt verðbólga í janúar hafi reynst meiri en Greining Glitnis gerði ráð fyrir telur deildin að það ráði ekki úrslitum um ákvörðun Seðlabankans á næsta vaxtaákvörðunardegi hans 8. febrúar næstkomandi. Spáir Greining Glitnis því að bankinn haldi stýrivöxtum sínum óbreyttum þá, en að hann hefði vaxtalækkunarferli í maí.

„Það sem helst gæti orðið til að bankinn hækkaði stýrivexti sína núna í febrúar væri að krónan gæfi verulega eftir eða hagtölur næstu mánaða sýndu að ekki væri að draga úr þenslu að neinu ráði. Þær hagtölur sem komið hafa fram á undanförnum vikum, t.a.m. um kreditkortaveltu og innflutning neysluvara, benda hins vegar til þess að nú hægist um í hagkerfinu og væntum við þess að Seðlabankinn taki mið af þeim," samkvæmt Morgunkorni Glitnis.

Nýbirtar verðbólgutölur Hagstofunnar kunna að ráða nokkru um 0,8% hækkun á gengi krónu frá opnun markaða í morgun. Verðbólgutölur yfir væntingum hafa gjarnan áhrif til hækkunar krónu þar sem þær auka líkur á hærri stýrivöxtum en ella hefði orðið, að því er segir í Morgunkorni Glitnis.

„Þó kann þróunin það sem af er degi einnig að vera framhald á þeirri hækkun sem varð í gær. Hávaxtamyntir víða um heim hafa auk heldur verið að hækka gagnvart stærstu gjaldmiðlum seinni hluta vikunnar eftir töluverða lækkun í upphafi árs.

Af viðbrögðum á skuldabréfamarkaði má ráða að 0,26% hækkun á vísitölu neysluverðs hafi komið aðeins á óvart. Ávöxtunarkrafa íbúðabréfa lækkaði um 3-6 punkta strax við opnun markaða í morgun. Að sama skapi hefur ávöxtunarkrafa ríkisbréfa hækkað um 5-10 punkta það sem af er degi. Verðbólguvæntingar virðast hafa hækkaði lítillega hjá fjárfestum en verðbólguálag til þriggja ára hækkaði úr 3,24% í 3,37% í morgun," samkvæmt Morgunkorni Glitnis.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK