Búist við óbreyttum stýrivöxtum Seðlabankans

Sérfræðingar, sem Dow Jones fréttaveitan hafði samband við, búast við að Seðlabankinn haldi stýrivöxtum sínum óbreyttum í næstu viku en vaxtaákvörðunardagur er næsta miðvikudag. Vextir bankans eru nú 14,25%. Ingólfur Bender, forstöðumaður Greiningar Glitnis, segir útlit fyrir að verðbólgumarkmið Seðlabankans náist ekki fyrr en á næsta ári.

Dow Jones segir að sex hagfræðingar, sem rætt hafi verið við í dag, hafi verið sammála um þetta. Hafi þeir bent á að nýjar hagtölur, sem birtar voru í dag, sýndu meiri verðbólgu en búist var við og því sé ólíklegt að Seðlabankinn lækki stýrivextina í bráð.

Haft er eftir Ingólfi Bender, forstöðumanni Greiningar Glitnis, að útlit sé nú fyrir að markmið Seðlabankans um 2,5% verðbólgu náist ekki fyrr en á næsta ári. Seðlabankinn hafi raunar sagt, að ekki væri útlit fyrir að stýrivextir færu að lækka fyrr en undir lok ársins og ekkert hafi gerst sem breyti því.

Dow Jones vísar til þess að þingkosningar séu á Íslandi um helgina og hefur eftir Raffaella Tenconi, hagfræðingi hjá Dresdner Kleinwort, að nú virðist mestar líkur á að Sjálfstæðisflokkur og Samfylking myndi ríkisstjórn. Líklegt sé að slík stjórn muni búa í haginn fyrir aukinn hagvöxt og því gæti vaxtalækkunarferli Seðlabankans orðið lengra en nú sé búist við.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK