Kaupþing spáir því verðbólgumarkmið náist ekki fyrr en árið 2010

Seðlabanki Íslands
Seðlabanki Íslands mbl.is/Kristinn

Eftir fimm ára vaxtarskeið hægir á hagkerfinu, nú þegar hægir á stóriðjuframkvæmdum og einkaneyslu landsmanna. Hagvöxtur verður þó jákvæður á næstu árum drifinn áfram af útflutningi og opinberum framkvæmdum. Verðbólgumarkmið mun ekki nást fyrr en í upphafi árs 2010 og er gert ráð fyrir skammvinnu og grunnu vaxtalækkunarferli. Hár vaxtamunur við útlönd mun áfram styðja við krónuna. Þetta kemur fram í nýrri efnahagsspá Greiningardeildar Kaupþings.

Í skýrslunni kemur fram að töluvert hægir á hagkerfinu á þessu og næsta ári þar sem nú hillir undir lok stóriðjuframkvæmda og einkaneysla tekur að mettast eftir 5 ára vaxtarskeið. Hagvöxtur mun þó verða jákvæður allt spátímabilið vegna útflutnings frá nýjum álsmiðjum og vegna vaxtar í opinberum fjárfestingum. Þjóðarútgjöld munu síðan aftur taka við sér árið 2009 með stóriðjuframkvæmdum í Helguvík, auknum ríkisútgjöldum og vaxandi atvinnuvegafjárfestingu, m.a. í verslunar- og skrifstofuhúsnæði.

Spá 5% verðbólgu í ár

Greiningardeild spáir um 5% verðbólgu á þessu ári og 3,9% á því næsta og að Seðlabankinn nái ekki markmiði sínu um 2,5% verðbólgu fyrr en 2010. Eins og staðan er nú virðist óvissan í spánni á næstu tveim árum vera mest upp á við – til vaxandi efnahagsumsvifa og meiri verðbólgu. Vinnumarkaður er mjög þaninn, kjarasamningar lausir, töluvert af stórum byggingarframkvæmdum í pípunum og mikið svigrúm til aukinna ríkisútgjalda.

Háir vextir áfram

„Spár okkar gera ráð fyrir fremur skammvinnu og grunnu vaxtalækkunarferli frá maí 2008 fram á árið 2009 þegar nýtt vaxtahækkunarferli hefst. Flest bendir því til að vextir á Íslandi verðir fremur háir út spátímabilið eða til 2010. Hraðara vaxtalækkunarferli veltur algerlega á því að einhvers konar snöggkólnun eigi sér stað á eignamörkuðum – að hiksti komi í útrásina eða að offramboð eigi sér stað á bæði atvinnu- og íbúðarhúsnæði," samkvæmt efnahagsspá Greiningardeildar Kaupþings.

„Í það heila tekið benda spár okkar til þess að lítið svigrúm gefist til vaxtalækkana af hálfu Seðlabankans á næstunni. Spár okkar gera ráð fyrir því að vaxtalækkunarferlið hefjist í maí 2008 og að Seðlabankinn muni síðan fikra sig varlega áfram. Ef svo fer fram sem horfir hvað varðar aukningu ríkisútgjalda, nýja stóriðju og aukna atvinnuvegafjárfestingu verður ekki séð annað en að stýrivextir Seðlabankans haldist áfram fremur háir út spátímabilið eða fram til 2010."

Telja að Seðlabankinn fresti vaxtalækkunarferli fram í maí

Að mati Greiningardeildar Kaupþings mun Seðlabankinn, á vaxtaákvörðunarfundi bankans þann 1. nóvember nk., tilkynna um frestun vaxtalækkunarferlisins fram í maí. Ástæðan liggur í senn í því að verðbólga hefur reynst hærri og efnahagsumsvif meiri en spár bankans gerðu ráð fyrir. Skiptir þar einna mestu máli að vinnumarkaðurinn hefur ekki enn sýnt nein merki kólnunar og fasteignamarkaðurinn hefur sótt í sig veðrið.

Að mati Greiningardeildar mun gengi krónunnar gefa eftir á svipuðum tímapunkti og vaxtalækkunarferlið hefst og það eitt og sér mun hægja á vaxtalækkunarferli bankans en ekki kalla fram nýjar hækkanir. Stýrivaxtapá deildarinnar gerir ráð fyrir að vextir fari lægst í 8,75% á seinni hluta ársins 2009 og haldist þar í u.þ.b. 12 mánuði. Greiningardeild gerir ráð fyrir að hagkerfið verði komið í uppsveiflu á ný árið 2010 og að vextir taki þá að hækka á ný. Spáin gerir einungis ráð fyrir að fyrsti hluti álvers í Helguvík verði að veruleika en óvissa spárinnar hnígur í átt að því að farið verði út í fleiri stóriðjuframkvæmdir um þetta leyti.

„Hraðara vaxtalækkunarferli veltur algerlega á því að einhvers konar brotlending eigi sér stað á eignamörkuðum – að hiksti komi í útrásina eða að offramboð eigi sér stað á bæði atvinnu- og íbúðarhúsnæði. Áframhaldandi hár vaxtamunur við útlönd mun styðja við krónuna með sömu brothættu formerkjum og verið hefur. Gangur hagsveiflunnar í sögulegu ljósi Greiningardeild spáir því að vöxtur einkaneyslu verði neikvæður árið 2008 eftir samfelldan vöxt næstu 5 ár á undan. Gert er ráð fyrir því að bakslagið verði aðeins samdráttur um 1,7% og síðan muni nýr vaxtarferill hefjast árið 2009," samkvæmt efnahagsspá Greiningardeildar Kaupþings.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK