Áhersla á lækkun stýrivaxta

mbl.is/Ómar

Lækkun fasteignaverðs, hækkun skuldatryggingaálags á skuldabréfum bankanna og almennur óróleiki á lausafjármörkuðum mun nú leggjast svo þungt á eina sveif með mjög háum stýrivöxtum Seðlabanka Íslands að raunveruleg hætta er á brotlendingu hagkerfisins. Kom þetta fram í máli Ásgeirs Jónssonar, forstöðumanns greiningardeildar Kaupþings, á blaðamannafundi þar sem efnahagsspá greiningardeildarinnar var kynnt.

Sagði Ásgeir að í öllu falli ætti núverandi staða að gefa Seðlabankanum færi á því að fara að fordæmi erlendra seðlabanka og lækka vexti án þess að glata trúverðugleika sínum eða virðingu á markaði. „Núverandi vaxtastefna Seðlabanka, eins og hún var kynnt í síðustu Peningamálum, er nær örugg leið að mjög harðri lendingu og hættulega nærri fjármálaóstöðugleika ef henni er haldið til streitu við núverandi aðstæður,“ segir Ásgeir.

Einkaneysla dregst saman

Greiningardeildin mælir með lengra og jafnara vaxtalækkunarferli en gert sé ráð fyrir af Seðlabankanum og telur rétt að hefja ferlið í vor, jafnvel með lækkun í næstu viku. Lengri töf á lækkun vaxta myndi leiða til brattara og áhættusamara vaxtalækkunarferlis, og gæti það skapað hættu á kollsteypu á gjaldeyrismarkaði sé vaxtamunur skyndilega keyrður niður eftir langa töf.

Er í efnahagspánni gert ráð fyrir því að einkaneysla dragist saman um 5% á næstu árum, en hins vegar muni nýjar stóriðjufjárfestingar og framkvæmdir á vegum ríkisins mæta þessum slaka að einhverju leyti. Gerir greiningardeildin ráð fyrir því að hagvöxtur á þessu ári verði rétt yfir 0% en aukist svo aftur á árunum 2009 og 2010.

Hvað varðar gengi krónunnar er í spánni gert ráð fyrir því að það veikist í upphafi vaxtalækkunarferlis á öðrum og þriðja fjórðungi þessa árs, en hins vegar verði vaxtamunur við útlönd enn það mikill að krónan muni áfram hafa töluverðan stuðning. Þá er í spánni gert ráð fyrir lækkandi ávöxtunarkröfu skuldabréfa á árinu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK