Glitnir spáir óbreyttum vöxtum

Seðlabanki Íslands
Seðlabanki Íslands mbl.is/Ómar

Greining Glitnis spáir því að Seðlabankinn haldi vöxtum óbreyttum í 13,75% á næsta vaxtaákvörðunarfundi, þann 10. apríl næstkomandi til að veita verðbólguvæntingum akkeri og koma í veg fyrir að raunstýrivextir lækki.

„Við teljum enn fremur að vöxtum verði haldið óbreyttum fram á mitt þetta ár og að Seðlabankinn hefji lækkunarferli stýrivaxta sinna í júlí, og lækki þá vexti um 0,50 prósentustig. Þá reiknum við með að vextir verið lækkaðir nokkuð ört eftir því sem hægist um í hagkerfinu og innlend eftirspurn dregst saman, m.a. vegna gengislækkunar. Spáum við því að stýrivextir verði 11,5% í árslok og 7% í lok árs 2009. Áður spáðum við að vextir stæðu í 11% í lok þessa árs og 7% í lok þess næsta.

Í síðustu spá okkar um stýrivexti sem við birtum í byrjun febrúar sl. gerðum við ráð fyrir því að Seðlabankinn myndi hefja vaxtalækkunarferli sitt í apríl á þessu ári. Frá því að við birtum þá spá hefur gengi krónunnar lækkað um ríflega 7% sem rekja má til þess umróts sem verið hefur á alþjóðlegum fjármálamörkuðum að undanförnu. Vísitala neysluverðs hækkaði um 1,4% í  febrúar, sem var umtalsvert meiri hækkun en við gerðum ráð fyrir og meira en felst í síðustu spá Seðlabankans, og var ársverðbólga 6,8% í mánuðinum.

Ef undan eru skilin áhrif af lækkun virðisaukaskatts 1. mars á síðasta ári þá mælist verðbólga enn meiri, eða 8,7%, langt umfram 2,5% verðbólgumarkmið Seðlabankans. Útlit er fyrir að verðbólga aukist enn frekar í mars, m.a. vegna gengislækkunar krónunnar að undanförnu og hækkana á hrávöruverði á alþjóðamörkuðum.

Enn er umtalsvert ytra ójafnvægi í þjóðarbúskapnum en viðskiptahalli á síðasta ári var nærri 16% af VLF samkvæmt nýlegum tölum Seðlabankans um greiðslujöfnuð við útlönd. Þá hafa enn ekki komið fram nægilega sterkar vísbendingar um að farið sé að hægja verulega á einkaneysluvexti. Þessu til viðbótar hefur peningalegt aðhald farið minnkandi að undanförnu á ýmsa mælikvarða. Raunstýrivextir m.v. liðna verðbólgu hafa lækkað og vaxtamunur við útlönd farið minnkandi, ef miðað er við framvirkt gengi krónu.

Á móti vegur raunar að mjög hefur hægst um á húsnæðismarkaði, aðgengi almennings og fyrirtækja að lánsfé hefur þrengst til muna og væntingar neytenda hafa lækkað verulega miðað við væntingavísitölu Gallup. Að þessu samanlögðu teljum við þó minni líkur en meiri á að Seðlabankinn komi til með að lækka stýrivexti á næsta vaxtaákvörðunarfundi sínum 10. apríl nk. líkt og við gerðum ráð fyrir í febrúarspá okkar. Þó er ekki hægt að útiloka vaxtalækkun í apríl. Slík ákvörðun myndi þá grundvallast á svartsýnni þjóðhagsspá í Peningamálum, sem bankinn gefur út samfara vaxtaákvörðuninni," samkvæmt Morgunkorni Glitnis.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK