Glitnir spáir frekari stýrivaxtahækkun

Seðlabanki Íslands.
Seðlabanki Íslands. Mbl.is/Brynjar Gauti

Greining Glitnis spáir því að Seðlabankinn hækki vexti um 0,25 prósentur til viðbótar, í 15,75%, á næsta vaxtaákvörðunardegi bankans 22. maí næstkomandi. 

„Verðbólga í apríl mældist 11,8% á ársgrundvelli og hefur ekki verið meiri í tvo áratugi. Þá er útlit fyrir að Seðlabankinn hafi vanmetið verðbólgu á öðrum fjórðungi ársins um 1,5 til 2 prósentustig í þjóðhagsspá bankans sem birt var samfara síðustu vaxtatilkynningu 10. apríl.

Við teljum því að Seðlabankinn muni hækka vexti á næsta fundi sínum til að veita verðbólguvæntingum trausta kjölfestu og varna enn frekari hækkun verðlags. Við gerum jafnframt ráð fyrir að sú stýrivaxtahækkun marki endalok vaxtahækkunarferlis bankans sem staðið hefur yfir í fjögur ár.

Vísbendingar eru þegar komnar fram um að farið sé að hægja á vexti innlendrar eftirspurnar, bæði einkaneyslu og fjárfestingu heimila sem fyrirtækja. Hægt hefur á ársvexti greiðslukortaveltu, innflutningur bifreiða og varanlegra neysluvara fer nú hjaðnandi, kaupmáttur launa hefur dregist saman og tiltrú neytenda á núverandi efnahagsástand hefur minnkað. Þá ríkir nánast verðstöðnun á fasteignamarkaði og velta á honum hefur dregist mikið saman auk þess sem nýjum íbúðalánum hefur fækkað mikið á milli ára," samkvæmt Morgunkorni Glitnis.

Spá hraðri lækkun á næsta ári

Greining Glitnis reiknar með því að Seðlabankinn hefji vaxtalækkunarferli sitt í september þegar skýr merki eru komin fram um kólnun hagkerfisins og að farið sé að draga úr verðbólguþrýstingi.

„Spáum við að stýrivextir verði 14,75% í lok þessa árs. Við reiknum með að vextir verði lækkaðir hratt á næsta ári eftir því sem dregur úr verðbólguþrýstingi og hjól efnahagslífsins fara að snúast að nýju, að verðbólgumarkmið bankans náist um mitt árið og að vextir standi í 8% í árslok 2009. Áður spáðum við að vextir yrðu 14,5% í lok þessa árs og 8% í lok þess næsta."

Veik króna enn um sinn

Eftir snarpa gengislækkun krónunnar í mars og umtalsverðar sveiflur á gengi hennar í þeim mánuði hefur öldurnar nú lægt á innlendum gjaldeyrismarkaði og verulega dregið úr sveiflum á genginu, að því er segir í Morgunkorni Glitnis.

„Skert aðgengi innlendra fjármálastofnana að erlendu lánsfé hefur valdið þrengingum á innlendum gjaldeyrisskiptamarkaði undanfarnar vikur, og heldur það gengi krónunnar lágu eins og stendur. Þegar við bætast lítil áhættulyst innlendra sem erlendra fjárfesta og erfiðar aðstæður á alþjóðlegum fjármálamörkuðum er ljóst að ekki er mikið svigrúm til styrkingar krónunnar á meðan það ástand varir. "

Styrking krónu í vændum

„Við spáum því að gengi krónunnar haldist í grennd við núverandi gildi þar til birta tekur á fjármálamörkuðum og að gengisvísitala erlendra gjaldmiðla verði að meðaltali 149 á öðrum fjórðungi ársins. Þegar alþjóðlegir lánamarkaðir opnast að nýju mun aðgangur fjárfesta að miklum vaxtamun við útlönd verða greiður og teljum við að krónan muni styrkjast allhratt af þeim sökum.

Ógerningur er að hins vegar tímasetja styrkinguna vegna þeirrar óvissu sem ríkir um þróun alþjóðlegra lánsfjármarkaða. Til meðallangs tíma eru þó verulegar líkur á að stöðutaka með krónu reynist ábatasöm, að því gefnu að hægt sé að fjármagna slíka stöðutöku á skaplegum kjörum.Við spáum því að gengisvísitalan standi nærri vísitölugildinu 135 í árslok, Bandaríkjadalur í tæpum 67 krónum og evran í 105 krónum. Í árslok 2009 spáum við að gengisvísitalan verði í grennd við 126, dollarinn ríflega 62 krónur og evran nærri 98 krónum," samkvæmt Morgunkorni Glitins þar sem ný gengis- og stýrivaxtaspá er birt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK