Óheppileg tengsl Exista og SPRON

„Þessi tengsl eru alls ekki heppileg og óttalegt klúður,“ segir Vilhjálmur Bjarnason, framkvæmdastjóri Samtaka fjárfesta, um tengsl forstjóra SPRON og stjórnarformanns SPRON við Exista.

Guðmundur Hauksson, forstjóri SPRON, er jafnframt stjórnarmaður í Exista, og Erlendur Hjaltason, stjórnarformaður í SPRON er forstjóri Exista. Verði af sameiningu SPRON og Kaupþings fá hluthafar í SPRON greitt fyrir bréf sín að 60% hluta með bréfum í Exista.

Eins og sagt hefur verið frá í 24 stundum hafa hluthafar í SPRON sumir hverjir vegna þessara tengsla áhyggjur af því að ekki sé verið að gæta hagsmuna þeirra, og eru ósáttir við að fá borgað með bréfum í Exista. Vilhjálmur segist skilja þessar áhyggjur. „En ég held þó ekki að verið sé að gæta hagsmuna Exista frekar, sem fer örugglega ekki vel út úr þessu.“

Vilhjálmur bendir á að afkoma SPRON undanfarin þrjú ár hafi staðið og fallið með gengi Exista. SPRON hefur fallið um 84% síðan það var sett á markað 21 október. Á sama tíma hefur verðmæti bréfa í Exista rýrnað um 82%.

„Þessi hringur; SPRON, Exista og Kaupþing, er óttalegt klúður sem hefur greinilega ekki skilað miklu,“ segir Vilhjálmur.

Hann bendir á að sami endurskoðandi endurskoði Kaupþing og SPRON, en á síðustu aðalfundum beggja fyrirtækja var ákveðið að Sigurður Jónsson skyldi fyrir hönd KPMG Endurskoðunar sjá um endurskoðun fyrirtækjanna fyrir næsta rekstrarár. „Mér finnst það afskaplega óheppilegt, sérstaklega undir þessum kringumstæðum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK