Straumur kaupir hluta Landsbankans

Straumur hefur keypt hluta af erlendri starfsemi Landsbankans
Straumur hefur keypt hluta af erlendri starfsemi Landsbankans

Straumur-Burðarás fjárfestingabanki  og Landsbanki
Íslands hafa skrifað undir samkomulag um kaup Straums á meirihluta af erlendri starfsemi Landsbankans á sviði fyrirtækjaráðgjafar og verðbréfamiðlunar fyrir 380 milljónir evra, 55,4 milljarða króna.

Kaupin eru háð samþykki eftirlitsaðila í viðkomandi löndum. Straumur mun eignast Landsbanki Securities (UK) Limited og Landsbanki Kepler að fullu, og einnig 84% hlut Landsbankans í Merrion Landsbanki.

Eiginfjárhlutfall Straums 20% eftir kaupin

Kaupverðið er greitt með reiðufé, útgáfu víkjandi láns og sölu útlána. Eiginfjárstaða bankans er afar sterk eftir þessi viðskipti og er eiginfjárhlutfallið yfir 20%, samkvæmt tilkynningu til Kauphallar Íslands.

„Kaupin styrkja verulega starfsemi Straums á sviði fyrirtækjaráðgjafar og verðbréfamiðlunar í Evrópu. Hjá fyrirtækjunum sem um ræðir starfa alls um 680 manns í 9 Evrópulöndum auk Bandaríkjanna, sem þýðir að eftir kaupin starfa 1.200 starfsmenn í 18 löndum hjá Straumi og dóttur- og hlutdeildarfélögum bankans.

Fyrirtækin þrjú, sem samkomulagið lýtur að, búa að traustum viðskiptasamböndum og stórum hópi viðskiptamanna í öllum helstu fjármálamiðstöðvum Evrópu. Rétt eins og Straumur hafa þau einkum einbeitt sér að meðalstórum fyrirtækjum og lagt áherslu á staðbundna þekkingu og ráðgjöf. Samanlagt munu greinendur hinnar nýju samstæðu veita ráðgjöf um fjárfestingar í yfir eitt þúsund evrópskumfyrirtækjum," að því er segir í tilkynningu.

Samanlagðar tekjur fyrirtækjanna þriggja sem keypt eru námu á síðasta ári 232 milljónum evra. Samanlagður hagnaður þeirra fyrir skatt nam 30 milljónum evra.

William Fall, forstjóri Straums, segir í tilkynningu: „Straumur hefur með þessu nýtt einstakt tækifæri sem bauðst til að auka umsvif bankans verulega, hasla honum völl á sviði fjárfestingabankastarfsemi og verðbréfamiðlunar á öllum helstu mörkuðum Evrópu og auka jafnframt vægi þeirrar starfsemi sem snýr að þjónustu við viðskiptavini.

Þetta er stórt skref fram á við fyrir bankann og samrýmist þeirri stefnu okkar að leggja aukna áherslu á þóknunartekjur og draga úr vægi langtímalánveitinga og eigin viðskipta í rekstrinum. Við teljum mikil verðmæti í því fólgin að veita þjónustu á grundvelli staðbundinnar sérþekkingar og ljóst er að fyrirtækin sem um ræðir, sem öll eru þekkt og mikils metin á starfssvæðum sínum, efla okkur verulega að þessu leyti."

Styrkja eiginfjárhlutfall Landsbankans

Viðskiptin styrkja eiginfjárhlutfall Landsbankans (Tier 1) þar sem 380 milljónir evra (um 55,4 milljarðar króna) eigin fjár voru bundin í rekstri dótturfélaganna, samkvæmt tilkynningu frá Landsbankanum.

„Viðskiptin gera Landsbankanum kleift að styrkja starfsemi sína utan Íslands, hagræða í rekstri og ná fram bættri kostnaðarhagkvæmni. Viðskiptin gera báðum fyrirtækjum kleift að nýta helstu styrkleika sína og innviði og halda jafnframt áfram að efla núverandi viðskiptasambönd og stofna til nýrra.

Í kjölfar þessara viðskipta mun Landsbankinn styrkja fyrirtækja- og viðskiptabankastarfsemi sína í útibúum og dótturfyrirtækjum. Sjónum verður áfram beint að því að auka fjölbreytni í bankastarfsemi erlendis á sviði eignatryggðra lána, sértækum útlánum og innlánastarfsemi ásamt tengdum fjármálaafurðum sem skapa fjölþættar og stöðugar rekstrartekjur," að því er segir í tilkynningu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK