Ernst&Young tekur yfir Landsbankann á Bretlandi

Breska fjármálaeftirlitið réð síðdegis í dag endurskoðendafyrirtækið Ernst&Young sem neyðarskilanefnd vegna starfsemi Landsbankans í Bretlandi með það fyrir augum að vernda  innlánseigendur og fjármálastöðugleika í Bretland. 

Ráðstöfunin nær þó ekki til að vernda innlán um 200 þúsund viðskiptavina Icesave, netbanka Landsbankans í Bretlandi, að sögn talsmanns endurskoðendafyrirtækisins. Viðskiptamenn bankans hafa ekki komist inn á reikninga sína í dag eftir að skilanefnd íslenskra stjórnvalda og fjármáleftirlitsins tók Landsbankann á Íslandi yfir í morgun.

Á vef breska dagsblaðsins Times kemur fram að verndin muni á hinn bóginn ná til viðskiptamanna Heritage, útibúi Landsbankans í Bretlandi, að því blaðið hefur eftir forsvarsmönnum E&Y. Tekið er fram að íslensk stjórnvöld hafi sett stjórn Landsbankans af.

Blaðið segir að breskir innlánseigendur kunni að standa frammi fyrir erfiðum róðri í því að ná sparifé sínu út úr Icesave. Landsbankinn sé einn nokkurra evrópskra banka starfandi í Bretlandi undir svokallaðri vegabréfs-undanþágu - sem feli í sér að fari bankinn í þrot verði innlánseigendur að sækja fyrstu 20 þúsund evrur innlánanna (15.500 pund eða 2,7 milljónir króna) til íslenska innlánstryggingasjóðsins, ekki þess breska. Hins vegar tryggi breska innlánstryggingin afganginn allt að 50 þúsund pundum, tæpl. 9 milljónum króna.

Talið er að Tryggingasjóður innistæðueigenda gæti þurft að ábyrgjast tæplega 320 milljarða íslenskra króna vegna Icesave. Eignir sjóðsins samkvæmt upplýsingum frá sjóðnum eru 13 milljarðar auk 6 milljarða króna í formi ábyrgða.

Í skriflegu svari til blaðamanns vísaði Jónas Þórðarson, framkvæmdastjóri Tryggingasjóðsins, til laga um sjóðinn en þar segir. „Hrökkvi eignir sjóðsins ekki til og stjórn hans telur til þess brýna ástæðu er henni heimilt að taka lán til að greiða kröfuhöfum."

Á blaðamannafundi í dag  sagði Geir H. Haarde, forsætisráðherra, að ef þörf væri á þá myndi íslenska ríkið styðja Tryggingarsjóð innistæðueigenda í að afla nauðsynlegs fjármagns svo sjóðurinn gæti staðið við lágmarksskuldbindingar sínar í kjölfar gjaldþrots eða greiðslustöðvunar íslensks banka.

Á mörgum breskum miðlum var umfjöllun um áhyggjur breskra sparifjáreigenda vegna erfiðleika Landsbankans. Á vef Financial Times   var því meðal annars velt upp hvort íslensk stjórnvöld gætu yfirleitt staðið við skuldbindingar sínar. Þar kom fram að Bretar gerðu ráð fyrir að Tryggingarsjóður innistæðueigenda myndi leita til Seðlabanka Íslands til að fá frekara fjármagn, en hvort sjóðurinn gæti þrátt fyrir auka fjármagn staðið við skuldbindingar sínar væri algjörlega óljóst. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK