Segja aðstæður gjörbreyttar með neyðarlögum

Alþingi samþykkti neyðarlög í gærkvöldi
Alþingi samþykkti neyðarlög í gærkvöldi mbl.is/Golli

Ef ríkisstjórnin sér ástæðu til þess að ræða við lífeyrissjóðina á nýjan leik mun forystusveit Landssamtaka lífeyrissjóða fjalla um erindið í ljósi þess að allar aðstæður hafa gjörbreyst með neyðarlögunum frá Alþingi og afleiðingum þeirra. Lífeyrissjóðir áskilja sér þannig allan rétt til að fjalla um málið á nýjum forsendum og komast að niðurstöðu í samræmi við þær.

Fjallað var ítarlega um nýsamþykkt lög um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamörkuðum á fundi stjórnar og varastjórnar Landssamtaka lífeyrissjóða í dag.

Forystusveit samtakanna hefur skilning á að ríkisstjórnin hafi séð sig knúna til að grípa til lagasetningar og tilheyrandi ráðstafana, enda hafi í raun blasað við neyðarástand að óbreyttu með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir fjölskyldur, fyrirtæki og allt fjármála- og efnahagskerfi landsmanna.

Landssamtök lífeyrissjóða segja í tilkynningu að lífeyrissjóðir hafi tekið  vel í tilmæli ríkisstjórnar í fyrri viku um að taka þátt í umfangsmiklum aðgerðum í efnahags- og fjármálalífi með því að flytja allt að helming erlendra eigna sinna til landsins til að styrkja íslenska krónu.

Engir samningar þar að lútandi hafa hins vegar átt sér stað, enda varð ljóst um helgina að umfang aðsteðjandi vanda væri slíkt að  kallaði á mun víðtækari og alvarlegri viðbrögð stjórnvalda en talað hafði verið um áður.

„Engum dylst að íslensk þjóð glímir við mikinn vanda og lífeyrissjóðir, líkt og aðrir, taka þátt í aðgerðum sem miða að því að komast út úr þrengingunum. Landssamtök lífeyrissjóða beina því þannig til stjórna og stjórnenda lífeyrissjóða í landinu að koma til móts við lántakendur eins og aðstæður leyfa hverju sinni.

Fyrir liggur að ástandið á fjármálamörkuðum og neyðarlögin frá Alþingi hafa áhrif á lífeyrissjóðina líkt og á öll heimili og fyrirtæki landsins. Ljóst er að eignir lífeyrissjóða rýrna við þessar aðstæður. Rétt er að halda því til haga að lífeyrissjóðir hafa aukið lífeyrisréttindi verulega á undanförnum árum. Allt bendir hins vegar til þess að aðstæður nú leiði til þess að grípa þurfi til skerðingar lífeyrisréttinda sem kæmi þó ekki til framkvæmda fyrr en á fyrri hluta árs 2009," að því er segir í tilkynningu frá Landsambandi lífeyrissjóða.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK