Davíð: Varaði ítrekað við að bankar væru í hættu

Davíð Oddsson.
Davíð Oddsson.

Davíð Oddsson, seðlabankastjóri, segir við breska viðskiptablaðið Financial Times, að hann hafi ítrekað varað stjórnendur íslensku bankanna við því að bankarnir væru í hættu en ekki hafi verið hlustað á hann.  

„Við reyndum að fá þá til að (draga úr umsvifum). Við áttum fund eftir fund með stjórnendum bankanna og við höfum það staðfest á minnisblöðum. Við sögðum þeim, að við teldum ekki að fjármögnun gegnum innlánsreikninga í Evrópu (gæti komið í stað) langtíma fjármögnunar. En við vorum taldir vera of svartsýnir," hefur blaðið eftir Davíð.

Financial Times segir, að þessi ummæli Davíðs sýni takmarkaða getu Seðlabankans til að tryggja stöðugleika íslenska fjármálakerfisins og styrki þá skoðun, sem vaxi nú fiskur um hrygg, að íslensku bankarnir hafi verið orðnir svo efnahagslega og pólitískt valdamiklir, að þeir gætu hunsað leiðsögn Seðlabankans.

Blaðið segir, að talið sé að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn setji það sem meginskilyrði fyrir fjárhagsaðstoð við Ísland, að eftirlit og lagarammi um fjármálakerfið verði endurskoðuð og bætt.

Davíð gagnrýnir í viðtalinu alþjóðlega seðlabanka og segist hafa ítrekað en án árangurs óskað eftir fjárhagslegri aðstoð til að styrkja gjaldeyrisvarasjóð Íslands. Nefnir hann seðlabanka Evrópu, seðlabanka Bandaríkjanna og Englandsbanka. 

Segist Davíð telja, að þessi afstaða seðlabankanna hafi átt sinn þátt í hruni íslenska fjármálakerfisins.

„Hefðum við haft meira svigrúm hefðum við verið í betri stöðu til að þrýsta á bankana um að draga saman seglin. Við hefðum bæði haft gulrætur og svipu en í raun höfðum við hvorugt. 

Financial Times segir, að Davíð hafi aðeins lýst hálfvolgum stuðningi við hugsanlegan aðgerðapakka Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og sagt að hann vonaði að ekki yrði um auðmýkingu að ræða. 

Frétt Financial Times

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK