Sakaður um lögbrot og auglýsir á Íslandi

Otto Spork. Vogunarsjóður fyrirtækis hans er sakaður um að hafa …
Otto Spork. Vogunarsjóður fyrirtækis hans er sakaður um að hafa fjárfest ólöglega í tveimur íslenskum vatnstöppunarfyrirtækjum.

Kanadíski eignastýringafyrirtækið Sextant Capital Management birti á laugardaginn atvinnuauglýsingu þar sem það óskar eftir bankamönnum til þess að manna nýja skrifstofu þess hér á landi. Stofnandi fyrirtækisins liggur hins vegar undir ásökunum um að hafa fjárfest ólöglega í íslenskum fyrirtækjum sem hafa vatnsréttindi hér á landi, Icelandic Glacier Products, sem reisir núna vatnstöppunarverksmiðju í Rifi og Iceland Global Water 2 Partners, sem hyggst reisa vatnsverksmiðju í Vestmannaeyjum.

„Við munum svara þessum ásökunum af fullum þunga,“ segir framkvæmdastjóri og stofnandi fyrirtækisins, Otto Spork sem er fyrrverandi tannlæknir, í samtali við vefútgáfu kanadíska dagblaðsins The Globe and Mail. Hann segist jafnframt ætla að ráða sér lögmann.

Verðbréfaeftirlitið í Ontario hefur tímabundið stöðvað viðskipti Sextant Capital og tengdra aðila, með sérstakan vogunarsjóð í eigu Sextant, Sextant Strategic Opportunities Fund, þangað til 23. desember n.k. Búist er við að eftirlitið óski eftir framlengingu stöðvunarinnar hinn 16. desember, svo rannsókn málsins geti haldið áfram óáreitt.

Sjóðurinn skilaði 159% arðsemi eigin fjár á fyrstu 11 mánuðum þessa árs, þrátt fyrir gríðarlega erfiðleika vogunarsjóða á mörkuðum almennt. 95% af eignum sjóðsins eru í vatnsfyrirtækjunum tveimur, sem skila engum tekjum og eru skráð í Lúxemborg.

Verðbréfaeftirlitið heldur því fram að Spork og dóttir hans, Natalie Spork, hafi brotið kanadísk lög um verðbréfaviðskipti með því að hafa staðið beggja vegna borðsins við gerð samninga. Mun sjóðurinn hafa greitt fyrirfram vegna væntinga um framtíðarhagnað, sem samanstendur af láni til tengdra aðila, sem brýtur gegn kanadískum lögum um verðbréfaviðskipti. Sjóðurinn fjárfesti í vatnsfyrirtækjunum tveimur þegar Spork hafði „verulegra hagsmuna að gæta“ í báðum þeirra. Þrjár milljónir dollara hafa verið greiddar úr sjóðnum á grundvelli væntinga um áætlaðan framtíðarhagnað.

Otto Spork dvelst nú hér á landi en er allt að 40 daga á ári í Kanada.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK