Grettir fjárfesti víða

Fjárfestingarfélagið Grettir varð til árið 2004 utan um eignarhlut í Straumi. Björgólfur Guðmundsson eignast fyrst hlut í félaginu árið 2006, en þá hafði þegar verið stofnað til 50 milljarða skuldar við Landsbankann.

Langstærstur hluti 58 milljarða króna persónulegra ábyrgða Björgólfs  við Landsbankann kominn til vegna áðurnefnds félags.

Félagið var stofnað árið 2004 af Landsbankanum, Tryggingamiðstöðinni og Stefáni Bjarnasyni utan um hluti TM og Landsbankans í Straumi. Ári síðar selur Sund ehf., félag í eigu fjölskyldu Óla í Olís, hlut sinn í Keri til Grettis og fær fyrir hlut í Gretti. Fjölskyldan var lengi tengd Gretti. Um tíma var hún stærsti eigandi TM, sem átti stóran hlut í Gretti, en svo urðu skipti á og Sund eignaðist tæp 50% í Gretti, en Grettir eignaðist hlut í TM.

Stærstu eignir Grettis voru ætíð í Icelandic Group (áður SH) og í Eimskipi (áður Avion Group). Í lok árs 2006 átti Grettir 34% í Eimskipi, en félag í eigu Magnúsar Þorsteinssonar átti einnig ríflega 30% í Eimskipi.

Áðurnefnd 50 milljarða skuld Grettis við Landsbankann verður, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins, til við kaup Grettis á hlutabréfum í Icelandic og Eimskipi á meðan Sund eru stærsti hluthafinn í félaginu.

Björgólfur Guðmundsson eignast fyrst 13% óbeinan hlut í Gretti í maí 2006. Þá keypti Hansa, félag Björgólfs, um þriðjungshlut í Gretti af Landsbankanum í október sama ár.

Grettir átti um vorið 2007 27% hlut í Tryggingamiðstöðinni og þá verða mikil umskipti á eignarhlut í Tryggingamiðstöðinni annars vegar og Gretti hins vegar. Er þá í raun skipt á hlutabréfum Grettis í TM og hlutabréfum Sunda í Gretti. Fyrir þessi skipti átti Hansa 28,5% í Gretti auk þess sem Opera fjárfestingar áttu 20,6% í félaginu. Lauk þar með samstarfi Sunda og Björgólfsfeðga.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK