Segist treysta því að vextir verði lækkaðir

Vilhjálmur Egilsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.
Vilhjálmur Egilsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. Árni Sæberg

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir lítið benda til þess að stýrivextir verði komnir í 9% fyrir 1. nóvember líkt og gert er ráð fyrir í stöðugleikasáttmálanum. Hann telur hins vegar að sáttmálinn sé ekki í hættu og treysta verði því að það gangi eftir að vextirnir verði lækkaðir í nánustu framtíð. 

Seðlabankinn og ríkisstjórnin í sjálfheldu

„Þetta sýnir svo vel í hvaða sjálfheldu bankinn og ríkisstjórnin er kominn í með gjaldeyrishöftin. Að þau eru orðin beinlínis skaðleg þar sem þau koma í  veg fyrir að gengi krónunnar geti hækkað," segir Vilhjálmur.

„Verðbólgan sem við erum með núna er fyrst og fremst tilkomin vegna þess að verð á vöru hækkar í kjölfar á á lækkandi gengi,“ segir Vilhjálmur.  „Við erum ekki að glíma við eftirspurnarverðbólgu sem er hin dæmigerða verðbólga sem brugðist er við með því að hækka vexti. Þannig að Seðlabankinn er kominn í algjöra sjálfheldu með vaxtastefnu sína og gjaldeyrishöftin," segir Vilhjálmur.

Stefnt er að því að afnema gjaldeyrishöftin í áföngum á næstu tveimur til þremur árum. Vilhjálmi finnst það mjög metnaðarlítil áætlun  og telur að afnema eigi þau mun hraðar. „Mér sýndist þessi áætlun bankans um afnám haftanna vera allt of hægfara og gerði í raun ekki annað en að halda genginu mjög lágu allt of lengi."

Hann segir að það sem Seðlabankinn ætti að vera að gera núna en ætlar ekki að gera fyrr en seinna er að breyta skuldum úr krónum í skuldir í evru. „Í fyrsta lagi fylgir því mikill kostnaður að vera með skuldirnar í krónum á þessum háu vöxtum. Það eitt og sér er mikil byrði. En síðan er það staðreynd að ef skuldirnar eru í krónum en kröfueigendurnir vilja flytja þær í evrur þá má segja að við skuldum þetta óbeint í evrum." 

Vilhjálmur segir að mörg fyrirtæki hafi í sínum verðákvörðunum undanfarin misseri verið að vonast til þess að gengi krónunnar myndi lagast en eftir því sem það helst jafn lágt og raun ber vitni sé ljóst að þau verða að bregðast við með verðhækkunum. Hann segir að háir vextir geti ekki komið í veg fyrir þær kostnaðarhækkanir sem fyrirtækin verða að bregðast við. 

Hann vill þó ekki meina að stöðugleikasáttmálinn sé í hættu. Kjarasamningar hafa farið í takt við sáttmálann og ríkisfjármálaáætlunin virðist standast.  Mikið hafi verið unnið í því að auka framkvæmdir og segist Vilhjálmur vonast til þess að hægt verði að koma atvinnulífinu í gang á ný með aðkomu ríkisins og lífeyrissjóðanna. Ef bankaviðreisnin gengur eftir með aðkomu erlendu kröfuhafanna þá sé það gott mál, segir hann og bætir við að eins eigi eftir að koma í ljós hvað peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands gerir á tveimur næstu vaxtaákvörðunardögum.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK