Höfða mál vegna neyðarlaganna

Björgvin G. Sigurðsson, þáverandi viðskiptaráðherra og Geir H. Haarde, þáverandi …
Björgvin G. Sigurðsson, þáverandi viðskiptaráðherra og Geir H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra á blaðamannafundi í neyðarlagavikunni. Erlendir kröfuhafar telja setningu neyðarlaganna afleik. Þeir hyggjast leita réttar síns. mbl.is/Brynjar Gauti

Níutíu og þrjú prósent evrópskra banka sem töpuðu peningum í hruni íslensku bankanna segjast ekki hafa neinn annan kost en að höfða mál gegn íslenskum stjórnvöldum þar sem þau hafi brugðist. Hvaða þýðingu hefðu slíkar málshöfðanir? 

Um það bil 98 prósent af evrópsku fjármálastofnunum telja að íslensk stjórnvöld hafi ekki sýnt erlendum kröfuhöfum föllnu bankanna sanngirni. Langflestir bankar sem töpuðu fé hér á landi íhuga málshöfðun gegn íslenskum stjórnvöldum, að því er fram kemur í könnun lögmannsstofunnar Norton Rose á afstöðu 60 helstu fjármálastofnana Evrópu til fjármálalífsins á Íslandi.

Margir kröfuhafanna eru óánægðir með þá ákvörðun íslenskra stjórnvalda að skipta bönkunum upp. Þ.e að setja erlenda starfsemi bankanna í þrot en nota eignir þeirra til þess að fjármagna innlenda starfsemi. Ákvarðanir um slíkt voru teknar í skjóli neyðarlaganna í haust.

Setning neyðarlaganna afleikur 

Stjórnvöld hafa ákveðið að fjármagna bankana með 270 milljarða hlutafjárframlagi sem skilanefndir bankanna munu síðan geta keypt af ríkissjóði fyrir hönd erlendra kröfuhafa. Ef það gengur eftir verður Íslandsbanki að fullu í eigu erlendra kröfuhafa og Kaupþing í 87 prósent eigu þeirra. Könnun Norton Rose sýnir að erlendir kröfuhafar eru ekki sáttir með þann samning. Þrír af hverjum fjórum í könnuninni sögðust telja að íslenska ríkið hefði brotið alþjóðalög með meðhöndlun sinni á fjármálakreppunni.

Óánægja erlendra kröfuhafa er ekki ný af nálinni. Samhljómur var á meðal þeirra fulltrúa erlendra kröfuhafa sem Morgunblaðið ræddi við síðastliðið haust að setning neyðarlaganna hinn 6. október 2008 hefði verið afleikur af hálfu íslenskra stjórnvalda. Með neyðarlögunum hefðu íslensk stjórnvöld gert tvenn afdrifarík mistök: þjóðnýtt eignir sem þau áttu ekki og breytt leikreglum eftir á. Þar áttu kröfuhafarnir við að íslenska ríkið hefði leyst til sín eignir sem í raun voru eignir lánardrottna íslensku bankanna og með því að gera íslenskar innstæður að forgangskröfum í þrotabú hefðu þau mismunað kröfuhöfum gróflega.

Erfitt er að ímynda sér hvaða afleiðingar það hefði ef erlendir kröfuhafar fara í mál gegn íslenska ríkinu vegna setningar neyðarlaganna og bera sigur úr býtum. Forsendur Icesave-samkomulagsins við Breta og Hollendinga kæmust t.d í uppnám ef neyðarlögunum yrði hnekkt.

Slíkt mál yrði að höfða fyrir íslenskum dómstólum, enda er varnarþing íslenska ríkisins á Íslandi. Hæstiréttur Íslands hefur oft komist að þeirri niðurstöðu að sett lög Alþingis hafi brotið gegn stjórnarskrá. Hefur dómsmálum um slík álitaefni fremur fjölgað í seinni tíð.

Stjórnskipulegur neyðarréttur

Það má segja að ákvæði neyðarlaganna, um að innstæðueigendur hafi forgangsrétt í þrotabú, hafi haft afturvirk áhrif sem röskuðu þar með réttarstöðu allra annarra kröfuhafa sem áttu almennar kröfur. Með því var verið að gera kröfur sumra kröfuhafa betri en annarra og þar með lækkaði verðgildi krafna þeirra sem ekki fengu forgangsrétt. Í málshöfðun vegna þessa ákvæðis neyðarlaganna mun hugsanlega koma til með að reyna á eignaréttarákvæði stjórnarskrárinnar.

Ragnar Aðalsteinsson, hæstaréttarlögmaður, sagði við Morgunblaðið hinn 20. október síðastliðinn að á endanum yrði þetta allt spurning um hvort neyðarlögin yrðu réttlætt fyrir dómstólum með stjórnskipulegum neyðarrétti.

„Ríkið mun bera fyrir sig slíkan rétt. Við höfum engin fordæmi dómstóla hér á landi, við höfum ekki ákvæði í stjórnarskrá, eins og margar aðrar Evrópuþjóðir hafa. Við höfum einungis fræðikenningu, grein eftir Bjarna Benediktsson sem hann skrifaði fyrir meira en hálfri öld. Í dómi Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Lawless gegn Írlandi er hins vegar leiðbeinandi regla um hvaða skilyrði þarf að uppfylla svo hægt sé að beita stjórnskipulegum neyðarrétti,“ sagði Ragnar.

Ragnar sagði að á endanum þyrfti að meta hvað hefði getað gerst. „Hefði þjóðin verið í stórfelldri hættu ef lögin hefðu ekki verið sett, t.d. ef bankastarfsemi hefði riðað til falls og efnahagurinn þar með? Í slíku máli verður sönnun erfið. Ríkið ber fyrir sig stjórnskipulegan neyðarrétt og þarf að sanna að skilyrðin hafi verið fyrir hendi.“

Ragnar Aðalsteinsson, hæstaréttarlögmaður.
Ragnar Aðalsteinsson, hæstaréttarlögmaður. mbl.is/Ásdís
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK