Viðsemjendur taki þrotabú Landsbankans

Í nýrri greiningu frá H.F. Verðbréfum eru færð rök fyrir þeirri skoðun að nýr samningur við bresk og hollensk stjórnvöld vegna lausnar Icesave-deilunnar verði að byggja á lækkun höfuðstóls sjálfrar skuldbindingarinnar annars vegar og á að viðbótartrygging Breta og Hollendinga á innistæðum í heimalöndum þeirra verði ekki jafnrétthá hinni lögbundu innlánatryggingu hins vegar.

Greiningin birtist í útgáfu H.F. Verðbréfa sem nefnist Píla. Þar kemur fram að umræða um vexti af láninu til ríkissjóðs hafi ef til vill verið fullfyrirferðarmikil. Það sem mestu máli skipti í þeim efnum sé að vextir sem falla á skuld ríkissjóðs myndi ekki kröfu á þrotabú Landsbankans heldur lendi þeir að fullu á íslenskum skattgreiðendum. Jón Daníelsson, lektor við London School of Economics, benti einmitt á þessa staðreynd í Morgunblaðinu á dögunum og sýndu útreikningar hans að vaxtabyrðin næmi tugum milljarða á ári hverju.

Bretar og Hollendingar taki þrotabú Landsbankans

Sérfræðingar H.F. Verðbréfa taka undir það sjónarmið sem Martin Wolf, einn ritstjóra Financial Times, setti fram á dögunum um að Bretar og Hollendingar tækju hreinlega yfir það sem eftir stæði af gamla Landsbankanum og það yrði skilgreint sem greiðsla fyrir þeirra framlag. Þar sem gert er ráð fyrir að eignir bankans muni standa undir 90% af forgangskröfum ætti þessi lausn að vera ásættanleg fyrir deiluaðila. Fram kemur í greiningunni að þar sem stærstur hluti þessara eigna sé erlendur ættu að vera hæg heimatökin fyrir viðsemjendur Íslendinga við úrvinnslu þeirra.

„Illskiljanlegur áfangi“

Fram kemur í Pílunni að það hafi verið „illskiljanlegur áfangi“ íslensku samninganefndarinnar að fallast á það að umframtryggingar breskra og hollenskra stjórnvalda væru jafnréttháar og lögbundin lágmarkstrygging, eins og Ragnar Hall lögmaður hefur bent á. Þetta þýði að lágmarkstryggingin innheimtist ekki fyrst heldur skiptist hún jafnt á milli Tryggingasjóðs annarsvegar og Breta og Hollendinga hinsvegar og njóta þeir síðarnefndu viðbótartryggingarinnar í þeim skiptum.

Sérfræðingar H.F. Verðbréfa telja að ef ofangreint náist fram í nýjum samningaviðræðum sé hægt að leysa deiluna til frambúðar án þess að „óréttmætar kvaðir“ verði lagðar á Íslendinga. Enn fremur væri hægt að líta á þá lausn til sönnunar á því að íslensk stjórnvöld hefðu staðið við allar sínar alþjóðlegar skuldbindingar í málinu. ornarnar@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK