Fjárlög í fastari skorður

Vilhjálmur Egilsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins
Vilhjálmur Egilsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins mbl.is/Árni Sæberg

Grundvallarforsenda þess að unnt verði að sækja fram til bættra lífskjara er að dregið verði úr útgjöldum hins opinbera og fjármunir þess nýttir betur. Kemur þetta fram í riti, sem Samtök atvinnulífsins hafa gefið út undir nafninu Nauðsynlegar umbætur í fjármálum hins opinbera, en það var kynnt á fundi á Grand Hótel í dag.

Framkvæmdastjóri SA, Vilhjálmur Egilsson, fór yfir tillögur SA, sem meðal annars fela í sér að gerbreyta þurfi vinnubrögðum við fjárlagagerð. Ákvarða þarf að mati samtakanna útgjaldaramma einstakra málaflokka til nokkurra ára í senn og vanda undirbúning ákvarðana og framkvæmda til að áform um skipulagsbreytingar nái fram að ganga. Er í ritinu bent á að oftar en ekki fara útgjöld ríkisins umtalsvert fram úr áætlunum og þessu þurfi að breyta.

Telja samtökin að taka þurfi skipulag í heilbrigðisþjónustu til gagngerrar endurskoðunar, meðal annars með því að auka hlutverk heilsgæslunnar og að skapa meira svigrúm fyrir einkaaðila til þess að koma að rekstri heilbrigðisstofnana. Koma þurfi á samkeppni milli þeirra sem veita heilbrigðisþjónustu til að viðhalda gæðum hennar og hvetja til framþróunar.

Þá vill SA að kostnaður á hvern nemanda í skólakerfinu verði lækkaður með því að gera skipulag skólamála markvissara. Útgjöld til menntamála á Íslandi eru hærri en í öðrum OECD ríkjum, sem hlutfall af landsframleiðslu, en það skilar sér ekki sem skyldi í árangri í menntun. Menntunarstig landsmanna á bilinu 25-64 ára er töluvert undir meðaltali OECD ríkja.

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, fagnaði á fundinum frumkvæði SA og sagði í ritinu margt gagnlegt að finna. Hann sagðist hins vegar ekki sammála öllu því sem þar kæmi fram og nefndi sérstaklega hugmyndir um aukna aðkomu einkaaðila í því sambandi. Hann sagði að árangur í efnahagsmálum í fyrra og í ár væri betri en búist hefði verið við, hagvöxtur hefði verið meiri og hallarekstur ríkisins minni. Þá væri að koma í ljós að þrátt fyrir mjög erfiðar aðstæður hér á landi væri staðan síst betri í mörgum öðrum vestrænum ríkjum.


mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK