Skattastefnan harðlega gagnrýnd

Vilhjálmur Egilsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.
Vilhjálmur Egilsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. mbl.is/Árni Sæberg

Í kjölfar bankahrunsins í október 2008 var fyrirsjáanlegt að ríkisfjármálin yrðu mjög erfið viðureignar á komandi árum og að samstillt átak þyrfti til að bregðast við tekjufalli og stórauknum vaxtakostnaði ríkissjóðs. Aðeins þannig yrði markmiði um sjálfbæran ríkisrekstur náð, að því er Vilmundur Jósefsson, formaður Samtaka atvinnulífsins, sagði á fundi SA og Viðskiptaráðs um skattatillögur þeirra í morgun.

„Okkur, í forystu atvinnulífsins skorti hins vegar hugmyndaflug til að ímynda okkur að ríkisstjórnin myndi færa skattkerfið áratugi aftur í tímann, fórna einfaldeika þess og gagnsæi, gera það ósamkeppnisfært við nálæg ríki og taka upp að nýju skatta sem eru óréttlátir og flest nálæg ríki hafa losað sig við. Þar að auki munu margar þeirra breytinga sem ríkisstjórnin hrinti í framkvæmd ekki færa ríkissjóði auknar tekjur heldur þvert á móti draga úr skatttekjum ásamt því að draga úr umsvifum í þjóðfélaginu og um leið seinka fjárfestingum og þeim bata sem efnahagslífið þarf svo sárlega á að halda,“ sagði Vilmundur.

Skattkerfið verður að vera einfalt

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, fór yfir helstu tillögur samstarfshópsins í skattamálum. Sagði hann að meginhlutverk og áhrif skattkerfis sé að standa undir opinberri þjónustu. Skattar móti hegðun og lágmarka þurfi neikvæð áhrif þeirra. Hagkvæmast sé að hafa breiða skattstofna með lágum prósentum. Þá auki einfaldleiki skattkerfis hagkvæmni, dragi úr skattsvikum og lækki kostnað.

Í tillögunum er lagt til að tekjuskattur á fyrirtæki verði aftur lækkaður í 15 prósent og að ný ákvæði um skattlanginu arðs að hluta til sem launatekjur verði felld brott. Sagði Vilhjálmur að ný ákvæði um skattlagningu í smáfyrirtækjum, með þessum hætti, séu óskýr og nái ekki tilgangi sínum. Til að standa undir aukinni skattbyrði, meðal annars auðlegðarsköttum, þurfi eigendur smærri fyrirtækja að taka meira fé úr fyrirtækjum sínum. Vegna þess að hluti arðsins er skattlagður sem launatekjur þarf eigandinn að taka enn meira fé út, og nýtist það fé því ekki til uppbyggingar fyrirtækisins.

Þá nefndi Vilhjálmur að þegar reiknaður er fjármagnstekjuskattur af vergum fjármagnstekjum, þ.e. nafnverðsávöxtun, geti raunveruleg skattlagning verið mun meiri en skattprósentan segir til um. Við ákveðnar aðstæður geti fjármagnstekjuskattur verið hærri en tekjuskattur, þegar horft er til raunávöxtunar fjármagns. Er í tillögunum lagt til að heimilt verði að draga vaxtagjöld frá fjármagnstekjum við útreikning skattsins, líkt og viðgengst erlendis. Þá er lagt til að fallið verði frá ákvæðum um auðlegðarskatt, sem í tillögunum er sagður jafngilda viðbótar 18 prósenta skattþrepi á fjármagnstekjur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK