Vilhjálmur hættur eftir fjórtán ár

Vilhjálmur Bjarnason á aðalfundi Samtaka fjárfesta í dag.
Vilhjálmur Bjarnason á aðalfundi Samtaka fjárfesta í dag. mbl.is/Ómar Óskarsson

Vilhjálmur Bjarnason er hættur sem framkvæmdastjóri Samtaka fjárfesta en hann tilkynnti það á aðalfundi samtakanna sem fram fór á Radisson Blu Saga Hótel síðdegis í dag. Hann hefur starfað fyrir samtökin í fjórtán ár.

„Ég er búinn að vera í þessu á fullu í fjórtán ár með öðrum störfum. Nú hef ég tekið við þingmennsku og ræð ekki við meira,“segir hann í samtali við mbl.is.

Árið 2007 hætti hann sem formaður og tók við starfi framkvæmdastjóra og hóf að þiggja laun frá samtökunum.

Hann segist skilja sáttur við samtökin. „Ég er mjög sáttur og tel að málstaður sparifjáreigenda sé miklu ljósari og skýrari núna en áður. Ég er sáttur með mitt framlag við að efla tiltrú á sparnaði, þó svo að árangurinn mælist kannski ekki í tölum,“ segir hann.

Vilhjálmur mun starfa sem framkvæmdastjóri þangað til eftirmaðurinn finnst, en ekki hefur verið ákveðið hver taki við starfinu.

Þá var nafni Samtaka fjárfesta jafnframt breytt í Samtök sparifjáreigenda á aðalfundinum.

Vilhjálmur segir að margir haldi að um sé að ræða „samtök stórkarla“, sem sé ekki reyndin og verið sé að breyta ásýnd félagsins með nafnabreytingunni til að varpa ljósi á að um sé að ræða almenna sparifjáreigendur.

Félagsmenn samtakanna eru um fimm hundruð, að sögn Vilhjálms.

– Hafa margir sótt um inngöngu nýlega?

„Hópur nemenda við Háskólann í Reykjavík, sem höfðu áður stofnað Samtök ungra fjárfesta, hefur sótt um, og við stöldruðum við þær umsóknir,“ segir hann og nefnir að það sé „nokkuð gróft“ að meðlimir annarra samtaka sæki um hjá þeim, einkum í ljósi þess að Samtök fjárfesta eigi „dálítinn aur“. „Þeir hafa aldrei látið sjá sig á fundum, svo ætla þeir að koma á aðalfund og hirða félagið. Kemur ekki til mála.“

Ásælast félagið

– Þú telur að þeir ásælist félagið?

„Já.“

– Hvað eigið þið af aurum?

„Við áttum um 15 milljónir um áramótin.“

– Hafið þið hleypt öðrum nýjum félögum að?

„Nei, við höfum verið alveg samkvæmir okkur í þeim efnum.“

Eru þetta allt ungliðar sem hafa sótt um?

„Já, allt saman ungliðar, fæddir 1988-1990.“

– Hefðuð þið hleypt þeim að ef þeir hefðu ekki stofnað þetta félag, Samtök ungra fjárfesta?

„Þá hefðum við kannski horft örðuvísi á málið. Þegar heil samtök ganga í önnur er staldrað við. Okkur ber að vernda hagsmuni samtakanna.“

– Fyrir ári bárust fréttir af mönnum sem komumst ekki í félagið?

„Við tókum þá alla inn, þeir voru 20 eða 30. Það voru allt starfsmenn verðbréfafyrirtækja sem höfðu aldrei sést áður á fundum hjá okkur.“

– Voru þetta þekktir menn í fjármálalífinu?

„Já, Arnar Sigurðsson (fjárfestir), Heiðar Már Guðjónsson (stjórnarformaður Vodafone) og Hjalti Baldursson, sem unnið hefur fyrir Jón Helga Guðmundsson í Byko, svo dæmi séu tekin.“

– Eiga þungavigtarmenn á fjármálamarkaði heima í þessum samtökum?

„Mér finnst að þeir eigi að stofna eigin samtök. Þeir hafa aðra hagsmuni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK