Markaðsdeildirnar víða fáliðaðar

Guðjón Guðmundsson, markaðsráðgjafi og einn eigenda Manhattan Marketing.
Guðjón Guðmundsson, markaðsráðgjafi og einn eigenda Manhattan Marketing. mbl.is/Kristinn

Hjá mörgum fyrirtækjum lentu markaðsdeildirnar undir niðurskurðarhnífnum í kjölfar bankahrunsins. Fyrir vikið er núna víða að koma í ljós að þekkingin og mannaflinn er ekki til staðar í nægum mæli til að efla markaðs- og auglýsingamál á ný, nú þegar tekið er að birta yfir hagkerfinu.

Þetta segir Guðjón Guðmundsson markaðsráðgjafi og einn eigenda Manhattan Marketing (www.manhattan.is). Guðjón á að baki langan feril í drykkjarvörugeiranum og rekur hann fyrirtækið með þeim Haraldi Daða Ragnarssyni, sem kemur úr íþrótta- og símageiranum, og Ragnari Má Vilhjálmssyni sem hokinn er af reynslu úr banka- og hugbúnaðarheiminum.

Undirmannaðar markaðsdeildir

Manhattan Marketing var stofnað á síðasta ári sem alhliða markaðsráðgjafarfyrirtæki. Segir Guðjón að greinileg þörf sé í atvinnulífinu fyrir utanaðkomandi ráðgjöf í markaðsmálum. „Víða eru markaðsdeildirnar orðnar svo fáliðaðar að full þörf er á sérhæfðum ráðgjöfum sem ýmist taka að sér afmörkuð verkefni, aðstoða við stefnumótun og ákvarðanatöku eða vinna við hlið þess markaðsteymis sem fyrir er.“

Guðjón segir það m.a. veita mikilvægan sveigjanleika í útgjöldum til markaðsmála að fá utanaðkomandi sérfræðinga að borðinu. Komi þessi sveigjanleiki sér vel þegar fyrirtækin færast smám saman úr aðhaldsstefnu niðursveifluáranna og yfir í það sem kalla mætti eðlilegt árferði og kröftugra markaðsstarf. Hann segir að það verði að gæta þess vandlega að standa ekki of lengi á bremsunni.

„Eftir það sem á undan er gengið er ekki von á öðru en að stjórnendur séu mjög varfærnir við alla ákvarðanatöku og hikandi við hvers kyns útgjöld. En um leið er sú hætta til staðar að þeir sem hika of lengi og fara of gætilega kunni að missa af lestinni. Á samkeppnismarkaði gengur ekki að sofna á verðinum og það lögmál er enn í fullu gildi að það kostar peninga að græða peninga.“

Þarf að skipta um gír?

Hann segir kreppuárin hafa verið gagnleg fyrir þær sakir að fyrirtæki þurftu mörg að læra að gera mikið fyrir lítið, en nú sé aftur að renna upp tímabil þar sem of mikil sparsemi getur reynst kostnaðarsöm, ef keppinautarnir ná að fanga alla athyglina.

„Gaman er að bera saman auglýsingarnar þegar best lét á hátindi góðærisins og svo í miðri kreppu. Í góðærinu var varla hægt að gera sjónvarpsauglýsingu án þess að tekin væru nokkur þyrluskot, en eftir hrunið komu mun einfaldari og praktískari auglýsingar þar sem var t.d. notast við ódýrar hreyfimyndir og jafnvel Legó-karla. Það gefur okkur vísbendingu um batnandi efnahag að auglýsingarnar eru farnar að verða stærri og veglegri á ný, eins og t.d. RED herferð Vodafone, og segir okkur að sum fyrirtæki eru farin að skipta um gír.“

Þarf líka að hugsa langt

Eitt af þeim vandamálum sem íslenskt markaðsfólk þarf að búa við er takmarkað framboð af markaðsrannsóknum. Guðjón segir smæð markaðarins valda því að erfitt er að réttlæta kostnaðinn af ítarlegum mælingum t.d. á lestri, hlustun og áhorfi á hina ýmsu miðla, en svo geri það málin enn verri að fyrirtæki hafa mörg dregið mjög saman seglin í markaðsrannsóknum sínum og verið knúin af aðstæðum líðandi stundar til að horfa til skammtímahagsmuna frekar en langtímahagsmuna.

„Það var ein af afleiðingum kreppunnar að rannsóknir voru látnar mæta afgangi, og svo virðist sem að með batnandi ástandi í efnahgaslífinu séu rannsóknirnar víða að fara hægt aftur af stað. Skiljanlegt er að fyrirtæki vilji hafa efst í forgangsröðinni það sem skilar árangri til skemmri tíma, en það er á vönduðum könnunum og rannsóknum á markaðinum sem hægt er að byggja alla langtímastefnumörkun og langtímaávinning í markaðsstarfinu.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK