Íslenskir bankar reyna á áhættusækni fjárfesta

Arion banki stefnir fyrstur íslenskra banka á evruútgáfu.
Arion banki stefnir fyrstur íslenskra banka á evruútgáfu. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Væntanleg skuldabréfaútgáfa Arion banka á evrumarkaði mun reyna enn meira á vilja fjárfesta til þess að kaupa bréf áhættusamra banka en sambærilegar útgáfur frá Grikklandi sem nýlega hafa komið á markað, að mati fjármálaritsins IFR. Ef af verður, mun útgáfa Arion banka verða hin fyrsta hjá íslenskum banka í stórum alþjóðlegum gjaldmiðli í sex ár.

Arion banki greindi nýlega frá því að bankinn hefði hafið undirbúning á útgáfu skuldabréfa í evrum. Verða haldnir fundir með fjárfestum í Evrópu á næstu dögum til að kanna grundvöll hennar áður en endanleg ákvörðun verður tekin. Vikuritið IFR (International Financing Review), sem er leiðandi fagrit um fjármagnsmarkaði, fjallar í nýjasta blaði sínu um málið undir fyrirsögninni „Íslenskir bankar rísa upp frá dauðum“.

Að mati blaðsins kann tímasetning fyrir skuldabréf frá íslenskum banka að vera hentug, þar sem hann gæti höfðað til fjárfesta sem séu að leita eftir hárri ávöxtun, eins og gríski Piraeus-bankinn hafi gert.

Haft er eftir Tommy Paxeus hjá Deutsche Bank, sem er einn umsjónarbanka væntanlegrar úgáfu, að íslenskir bankar séu í raun þeir síðustu í Evrópu inn á markaðinn. Þeir eigi visslega við fortíðarvanda að stríða en sé litið til lánshæfis og fjárhagslegs styrkleika standi þeir vel að vígi. Lánshæfiseinkunn Arion banka er BB+ frá Standard & Poor‘s.

Í umfjöllun IFR er vísað til þess að fall bankakerfisins á Íslandi og yfirstandandi ágreiningur breskra og hollenskra stjórnvalda við tryggingasjóð innistæðueigenda á Íslandi sé enn ofarlega í huga margra fjárfesta. Það, ásamt því að íslenska bankakerfið sé einungis 6 milljarðar evra að stærð, geri það að verkum að fjárfesting í íslenskum bönkum er ekki valkostur fyrir flesta leiðandi skuldabréfafjárfesta.

Paxeus bendir hins vegar á að margir sérhæfðari fjárfestar hafi áhuga á óhefðbundnari útgefendum. Slíkir fjárfestar fylgist með íslensku bönkunum og hafi skilning á þeim sem fjárfestingarkosti.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK