Landsliðið á árshátíð Símans

Hjaltalín verður meðal skemmtiatriða á árshátíð Símans um helgina. Auk …
Hjaltalín verður meðal skemmtiatriða á árshátíð Símans um helgina. Auk þeirra verður landslið tónlistarmanna á staðnum. Styrmir Kári

Um helgina fer fram árshátíð Símans í tveimur sölum Hörpu, Silfurbergi og Norðurljósum, en um 800 manns eru skráðir til leiks. Framboð skemmtiatriða hefur sjaldan verið veglegra, en réttast væri að segja að landslið tónlistarmanna verði á staðnum. Samkvæmt upplýsingum mbl.is verða það Hjaltalín, Retro Stefson, Kaleo, Baggalútur, Jóhanna Guðrún, Mugison, John Grant, Hermigervill og Berndsen sem munu spila fyrir árshátíðargesti. Þá munu þeir Bergur Ebbi og Jóhann Alfreð úr Mið Íslandi sjá um veislustjórn og Gullfoss og Geysir spila fyrir dansi fram á nótt. 

Þessi flugeldasýning vekur nokkra athygli í ljósi þess að nýlega fór félagið gegnum fjárhagslega endurskipulagningu og nýr forstjóri, Orri Hauksson, hóf feril sinn hjá fyrirtækinu með því að stokka upp með skipulagsbreytingum og reka þrettán starfsmenn. Þá sagði Viðskiptablaðið einnig frá því í síðustu viku að Orri hafi slitið þeirri hefð að starfsmenn fengju páskaegg frá fyrirtækinu. Var ástæðan fyrir því aðhald í rekstri.

Þá var einnig kostnaður Vodafone við árshátíð á síðasta ári umtalaður, en árshátíðin kostaði 14 milljónir og var það nánast jafn mikið og heildartap félagsins á þeim ársfjórðungi, sem var 16 milljónir.

Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir, upplýsingafulltrúi Símans, segir í samtali við mbl.is að árshátíðin verði með nokkuð öðru sniði í ár og verði til dæmis standandi borðhald og smáréttir í staðinn fyrir sitjandi borðhald. Þannig hafi áherslan frekar verið lögð á skemmtiatriðin og því sé ekki verið að kosta meiru til en venjulega.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK