Hagvaxtarhorfur lítið breyttar

Leiðandi hagvísir Analytica hækkaði áfram í marsmánuði, níunda mánuðinn í röð. Hagvísirinn bendir þannig til áframhaldandi vaxtar næstu mánuði, að því er segir í tilkynningu frá Analytica.

Þar segir að hagvaxtarhorfur 2014 séu lítið breyttar frá því í mars. Vísbendingar séu um að innlend eftirspurn sé að aukast og komum ferðamanna til landsins fjölgi enn mikið. Þá gæti fiskafli hafa náð lágmarki í kjölfar loðnubrests.

Hagvísirinn hækkaði um 0,4% í mars og tekur gildið 103,0. Sú tala á að gefa vísbendingu um framleiðslu sex mánuðum síðar, þ.e. í september 2014. Hagvísirinn tekur gildið 100 þegar búist er við því að landsframleiðsla verði í takt við langtímaleitni.

„Hagvísirinn er vísitala sem gefur vísbendingu um efnahagsumsvif að sex mánuðum liðnum. Það er hlutverk vísitölunnar að veita skýra sýn á efnahagshorfur og vara tímanlega við viðsnúningi í efnahagsumsvifum. Vísitalan er reiknuð á grundvelli sömu aðferðafræði og annars staðar þar sem sambærilegar vísitölur eru reiknaðar en sérstaklega er tekið mið af verklagi OECD,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK