Hlutabréf í Apple snarhækka

AFP

Hlutabréf tæknirisans Apple snarhækkuðu um sjö prósent í verði eftir að félagið birti uppgjör sitt fyrir fyrsta fjórðung ársins seint í gærkvöldi. Hagnaður félagsins var mun meiri en greinendur höfðu gert ráð fyrir, eða 10,2 milljarðar Bandaríkjadala, jafnvirði um 1.145 milljarða króna á gengi dagsins í dag.

Tekjur félagsins á ársfjórðunginum námu 45,6 milljörðum Bandaríkjdala, sem jafngildir um 5.120 milljörðum króna.

„Við erum mjög stolt af ársfjórðungsuppgjörinu, sér í lagi af sterkri sölu á iPhone-símum og mettekjum af þjónustustarfseminni,“ sagði Tim Cook, forstjóri Apple, á uppgjörskynningunni í gær.

„Við hlökkum ákaflega til þess að fá að kynna til leiks nýjar vörur og þjónustu sem aðeins Apple getur komið með inn á markaðinn,“ bætti hann við.

Apple seldi alls 43,7 milljónir iPhone-síma á ársfjórðunginum, sem er töluvert meira en þeir 38 milljónir síma sem greinendur á Wall Street höfðu spáð að félagið myndi ná að selja.

Tekjurnar jukust þess vegna um 4,6% en greiningaraðilar höfðu ekki gert ráð fyrir neinum tekjuvexti, að því er segir í frétt Reuters.

Athygli vakti að félagið ákvað að halda áfram að kaupa eigin hlutabréf í miklum mæli. Í gær tilkynnti félagið að það hugðist kaupa eigin hlutabréf fyrir þrjátíu milljarða Bandaríkjadala á næstu misserum. Alls hefur félagið keypt eigin hlutabréf fyrir sextíu milljarða dala á þessu ári. Sérfræðingar segja að ástæðan sé sú að stjórnendurnir telji að hlutabréf félagsins séu of lágt verðlögð.

Þá hyggst félagið jafnframt greiða út arð, eins og fjárfestar höfðu búist við.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK