Yfirlýsingin hefur ekki áhrif á álver

Nokkrir milljarðar hafa farið í undirbúning álversins í Helguvík. Ekki …
Nokkrir milljarðar hafa farið í undirbúning álversins í Helguvík. Ekki er enn ljóst hvort verði af framkvæmdum, en nýleg viljayfirlýsing milli Orku náttúrunnar og Silicor material hefur ekki áhrif á þær framkvæmdir. mbl.is/Golli

Viljayfirlýsing milli Orku náttúrunnar, dótturfélags Orkuveitu Reykjavíkur og Silicor materials hefur engin áhrif á samning milli Norðuráls og Orkuveitunnar um raforku fyrir fyrirhugað álver í Helguvík. Þetta segir Páll Erland, framkvæmdastjóri Orku náttúrunnar, í samtali við mbl.is. Hann segir að nýlega hafi orkusamningur milli Orkuveitunnar og Landsvirkjunar runnið sitt skeið á enda og þar með hafi raforka losnað sem hafi verið hægt að semja um upp á nýtt.

Nýlega skrifuðu Silicor Mater­ial og Orka náttúrunnar upp á viljayfirlýsingu um kaup á 35 mega­vött­um af raf­orku vegna fyr­ir­hugaðrar sól­arkís­il­verk­smiðju á Grund­ar­tanga. „Þetta er alveg óháð samningum og skuldbindingum við Norðurál,“ segir Páll.

Eins og staðan er í dag er ekki til mikil umfram orka hjá íslenskum raforkuframleiðendum, en Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar sagði nýlega að virkja þyrfti á ný ef halda ætti í frekari verkefni. 

Páll segir sömu stöðu vera uppi hjá Orku náttúrunnar, en lítil umframorka er til staðar hjá þeim. Það var því ekki skrítið að margir hafi rekið upp stór augu þegar tilkynnt var um samkomulagið við Silicor og hvort það væri einhliða tilkynning frá Orkuveitunni um endalok álvershugmynda.

Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitunnar, segir svo ekki vera, enda séu samningar frá 2008 enn í gildi milli Norðuráls og Orkuveitunnar um afhendingu. Þeir skuldbinda fyrirtækið til að afhenda orku frá Hverahlíð, komi til uppbyggingar álversins. 

Lítið hefur þó gerst undanfarið í þeirri uppbyggingu og bent hefur verið á lágt álverð á heimsmarkaði því til stuðnings að nú sé mögulega ekki besti tíminn til uppbyggingar álvers. Viðræðum hefur þó ekki verið slitið og Bjarni segir að ekkert sólarlagsákvæði eða uppsagnarákvæði sé í samningnum. Hann telji þó réttast að Orkuveitan fari ekki í frekari uppbyggingu, nema það komi til þess að fyrirtækið þurfi að uppfylla ákvæði samningsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK