Selja Verslun Guðsteins Eyjólfssonar

Myndir af manni með bindi á vegg Verslunar Guðsteins Eyjólfssonar …
Myndir af manni með bindi á vegg Verslunar Guðsteins Eyjólfssonar á Laugavegi. Myndirnar hafa löngu orðið klassískar og ferðamenn eru duglegir að smella myndum af veggnum. Styrmir Kári

Svava Eyjólfsdóttir hefur staðið vaktina í Verslun Guðsteins Eyjólfssonar undanfarin 30 ár og þar af hefur hún séð um reksturinn síðustu 10 árin. Nú segir hún að tími sé kominn til að setja punktinn aftan við þetta ferðalag, en hún og fjölskylda hennar, sem hafa rekið verslunina í næstum heila öld, ætla að selja reksturinn.

Þrjár kynslóðir rekið verslunina

Verslunin var stofnuð árið 1918 af Guðsteini Eyjólfssyni klæðskera. Árið 1929 flutti hún yfir í núverandi húsnæði við Laugaveg þar sem hún hefur verið allar götur síðan, en Guðsteinn byggði sjálfur húsið. Í ár eru því 96 ár frá stofnun og 85 ár síðan verslunin kom á Laugaveginn.

Svava segir að þrjár kynslóðir hafi rekið verslunina á þessari tæpu öld, en sonur Guðsteins, Eyjólfur Guðsteinsson, tók við rekstrinum af föður sínum og sinnti honum alla ævi. Svava hóf störf í versluninni fyrir um 30 árum, en hefur séð um reksturinn síðustu 10 ár, eða síðan Eyjólfur lést.

„Það eldast allir“

Aðspurð hvað orsaki það að þau hyggi á sölu núna segir Svava að þetta sé bara eins og gengur og gerist. „Það eldast allir og einhvers staðar þarf að setja punktinn,“ segir hún. Reksturinn hefur í gegnum árin gengið vel og segir Svava einnig gott samkomulag hafa verið í gegnum árin hjá fjölskyldunni. Þannig hafi allt gengið smurt fyrir sig, en nú sé kominn tími til að stíga til hliðar. Reksturinn verður með óbreyttu sniði þangað til kaupandi finnst, að sögn Svövu.

Eiga alla fasteignina

Fjölskyldan á einnig alla fasteignina að Laugavegi 34, þar sem verslunin er, en Svava segir óljóst hvað verði gert með hana. Í dag er verslunin á jarðhæð, en þar fyrir ofan er skrifstofa, lager og saumastofa. Á efstu hæðinni er svo íbúðarhúsnæði. Hún segir ekki ljóst hvort húsnæðið verði selt samhliða rekstrinum eða hvort þau muni áfram eiga það. Hún tekur þó fram að allt tal um að búið sé að selja húsið undir hótelstarfsemi sé úr lausu lofti gripið.

Veggurinn orðinn klassík

Utan á húsinu er mynd sem margir kannast við, en hún hefur undanfarinn áratug virkað sem kennsla um hvernig binda eigi bindishnút. Svava rifjar upp að áður fyrr hafi starfsfólk verslunarinnar verið að berjast við veggjakrot og reglulega þurft að byrja daginn á að mála yfir slíkt.

Í eitt skiptið hafi listamaður komið til hennar með hugmyndina að verkinu sem hún tók feginshendi og síðan þá hefur það verið fastur punktur í ásýnd Laugavegarins, en Svava segir að veggurinn hafi að mestu fengið að standa ósnertur síðan. Hún segir reyndar ótrúlegt hve mikill áhugi ferðamanna sé á honum og að það sé nánast stanslaus umferð allan daginn þar sem ferðamenn taki myndir af kennslunni góðu.

Herrafataverslun Guðsteins Eyjólfssonar við Laugaveg hefur verið stór hluti af …
Herrafataverslun Guðsteins Eyjólfssonar við Laugaveg hefur verið stór hluti af lífi Svövu Eyjólfsdóttur. Valdís Þórðardóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK