Rekstrarniðurstaða Marels óviðunandi

Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marels, segir rekstrarniðurstöðuna óviðunandi, en að …
Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marels, segir rekstrarniðurstöðuna óviðunandi, en að verkefnastaða hafi batnað. mbl.is/Árni Sæberg

Afkoma annars ársfjórðungs hjá Marel versnaði milli ára, en hagnaður félagsins nam 0,8 milljón evrum, samanborið við 5,2 milljónir evra á sama tíma í fyrra. Leiðrétt fyrir hagræðingaraðgerðum var rekstrarhagnaður félagsins 10,7 milljónir evrur, samanborið við 12,3 milljónir árið á undan. 

Árni Oddur Þórðarson, forstjóri félagsins, segir að rekstrarniðurstaðan sé enn ekki viðunandi, en að verkefnastaða hafi batnað verulega og hagræðing rekstrar sé samkvæmt áætlun.

„Við vinnum nú að því að gera félagið skilvirkara, skerpa á markaðssókn þess og hámarka nýtingu á framleiðslueiningum okkar. Markmiðið er skýrt – að auka langtímavirði fyrir viðskiptavini og hluthafa,“ segir Árni Oddur í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Tekjur á öðrum ársfjórðungi 2014 námu 169,8 milljónum evra, samanborið við 178,4 milljónir evra árið á undan. Leiðréttur rekstrarhagnaður (EBIT) var 10,7 milljónir evra, sem er 6,3% af tekjum. EBIT var 3,6 milljón evra sem er 2,1% af tekjum. Á öðrum ársfjórðungi í fyrra var EBIT 12,3 milljónir evra.

Pantanabók stóð í 156,4 milljónum evra í lok annars ársfjórðungs 2014  samanborið við 138,4 milljónir evra í lok fyrsta ársfjórðungs og 131,8 milljón evra á sama tíma í fyrra.

Í tilkynningunni segir að markaðir Marels hafi þróast með jákvæðum hætti. Með markvissri markaðssókn hafi Marel tryggt gott jafnvægi á milli stærri pantana, pantana á stöðluðum vörum og varahlutum. Þá hafi rekstrarhagnaður af starfsemi Marels í kjúklingaiðnaði batnað og starfsemi í laxaiðnaði gangi vel.

Með skýrari rekstraráherslum og hagræðingaraðgerðum hefur tekist að minnka árlegan kostnað um 8 milljónir evra á meðan einsskiptiskostnaður nemur 10,7 milljónum evra.

Í byrjun árs tilkynnti Marel að gert væri ráð fyrir 55 milljóna evra leiðréttum rekstrarhagnaði (e. adjusted EBIT) á árinu með innri tekjuvexti. Byggt á stöðu pantana og horfum á mörkuðum er innri vöxtur raunhæfur, að því er segir í tilkynningunni, en uppfært mat stjórnenda gerir ráð fyrir að leiðréttur rekstrarhagnaður lækki á árinu og verði 40–50 milljónir evra. Áfram er markmið um að rekstrarhagnaður ársins 2017 verði yfir 100 milljónir evra.

Marel
Marel
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK