Enn skortur á hótelherbergjum

Davíð Björnsson, forstöðumaður mannvirkjagerðar og ferðaþjónustu á fyrirtækjasviði Landsbankans
Davíð Björnsson, forstöðumaður mannvirkjagerðar og ferðaþjónustu á fyrirtækjasviði Landsbankans

Fjölgun erlendra ferðamanna frá árinu 2011 til 2013 var 44% á meðan hótelherbergjum í Reykjavík fjölgaði aðeins um 11%. Það mikla framboð sem mun bætast við á næsta ári er því einskonar leiðrétting á þeim skorti sem hefur byggst upp síðustu ár. Þetta segir Davíð Björnsson, forstöðumaður mannvirkjagerðar og ferðaþjónustu á fyrirtækjasviði Landsbankans, í samtali við mbl.is.

Nýtingarhlutfallið aldrei betra

Nýtingarhlutfall hótelherbergja hefur aukist jafnt og þétt undanfarin ár og var yfir allt árið 2013 komið upp í 77%. Davíð segir þetta vera sögulegt hámark og að ef miðað sé við langtímameðaltal og tölur erlendis frá sé réttara að horfa til 65-70% nýtingar. Allt tal um að framúrkeyrslu í hótelbyggingum eigi því ekki við rök að styðjast.

Þar sem uppbygging hótela og gistiheimila tekur tvö til þrjú ár, frá því að framtaksaðilar koma með hugmynd á borðið, er erfitt fyrir framboðið að elta eftirspurnina í þeirri aukningu sem hefur verið síðustu ár. Davíð segir að framboð herbergja sé því alltaf eftir á og geti ekki fylgt hraðri fjölgun ferðamanna. Í dag séu fleiri ferðamenn um hvert hótelherbergi og nýtingin því aldrei betri.

Þarf 200-300 ný herbergi á ári að lágmarki

Hann segir Landsbankann spá því að nýtingin muni áfram aukast í ár, í ljósi þess að lítið sé um ný hótel sem tekin verða í notkun  í ár. Til lengri tíma muni aftur á móti draga úr fjölgun, en Davíð segist þó áfram gera ráð fyrir henni umfram heimsmeðaltal.

Hann bendir á að á hér hafi fjölgun ferðamanna verið milli 10 og 20% síðustu ár, meðan spáð sé 5% fjölgun á heimsvísu. Jafnvel þótt hlutfallið hér fari niður í 7%, þá þýði það 200 ný herbergi á ári í Reykjavík og ef fjölgunin er 10% eru það 300 ný herbergi á ári. Til samanburðar fjölgaði herbergjum í höfuðborginni um 100 á ári frá 2011 til 2013.

Enn skortur á hótelherbergjum

„Það þarf að horfa á þessar tvær tölur í samhengi,“ segir Davíð og bætir við að þær sýni að enn sé skortur á hótelherbergjum. Vísar hann til þess að samkvæmt spám hafi verið gert ráð fyrir á milli 950 þúsund og einni milljón ferðamanna á þessu ári. Samkvæmt tölum frá Ferðamálastofu hefur fjölgun farþega til landsins verið 29%, en ef sú aukning verður út árið má gera ráð fyrir að ferðamenn verði rétt rúmlega milljón í heild á árinu.

Fjárfesting fyrir tugi milljarða

Á næsta ári gerir Landsbankinn ráð fyrir að tæplega  800 hótelherbergi muni koma ný á markaðinn á höfuðborgarsvæðinu, en að fjölgunin næstu árin þar á eftir verði mun minni. Samanlagt segir hann að gera megi ráð fyrir því að heildarfjárfesting í nýjum hótelum í Reykjavík á þessum tveimur árum verði um 19 til 20 milljarðar, fyrir utan hótelið við Hörpuna, sem hefur verið metið á 6 til 7 milljarða.

Nýtt blómaskeið

Davíð segir að með þessari uppbyggingu sé miðbærinn að ganga í endurnýjun lífdaga, en að árin 1970-2000 hafi vægi miðbæjarins minnkað með því að stór hluti atvinnufyrirtækja sem þar voru staðsett hafi flust í ný atvinnuhverfi  annars staðar á höfuðborgarsvæðinu.. Nú séu ekki lengur laus verslunarpláss og mikil uppbygging sé t.d. í veitingastöðum,  kaffihúsum og ferðamannaverslunum.

Miðbær Reykjavíkur fór í gegnum svipað blómaskeið árin 1950-1970 að sögn Davíðs, en þá var það miðpunktur verslunar, þjónustu og iðnaðar, áður en mikil uppbygging hófst í eystri hluta borgarinnar. Hann segist sjá fyrir sér frekari uppbyggingu í miðbænum á næstunni, t.d. við höfnina og að með komu hótela og ferðaþjónustu verði miðbærinn enn frekar  miðpunktur mannlífs. 

Víða um Reykjavík eru framkvæmdir vegna nýrra hótela. Hér er …
Víða um Reykjavík eru framkvæmdir vegna nýrra hótela. Hér er verið að breyta gamla Reykjavíkurapótekinu. Eggert Jóhannesson
Við Höfðatorg rís nýtt hótel, en það verður það stærsta …
Við Höfðatorg rís nýtt hótel, en það verður það stærsta á landinu. Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK