Yfir 1000 íbúðir í Reykjavík á airbnb

Fjöldi íbúða í miðbænum eru til leigu á vefnum airbnb, …
Fjöldi íbúða í miðbænum eru til leigu á vefnum airbnb, bæði íbúðir sem einstaklingar leigja út og stærri leigufélög. Þórður Arnar Þórðarson

Í Reykjavík allri eru yfir 1.000 íbúðir í útleigu í gegnum leiguvefinn airbnb, en þar gefst einstaklingum færi á að leigja út eigin íbúð til ferðamanna sem koma til landsins. Mikil aukning hefur verið í þessu undanfarin ár og skortur á hótelherbergjum hefur komið af stað stórri bylgju þar sem margir hafa gert upp eigin íbúðir eða jafnvel keypt aukaíbúð til þess að leigja út.

Erfitt er að finna nákvæmar tölur um fjölda íbúða í leigu í Reykjavík, en með því að nota leitarkort á vefsíðunni má ná fram ákveðinni nálgun. Þannig er hægt að sjá að á Seltjarnarnesi og í Reykjavík austur að Elliðaám eru 930 íbúðir skráðar á vefinn. Þar af eru aðeins örfáar á Seltjarnarnesi, undir tíu.

Miðbærinn sker sig úr

Þegar reynt er að greina hverfi og póstnúmer nánar lækkar talan nokkuð og telur 793 íbúðir, en það má rekja til þess að einhverjir eru ekki með merkt inn hvar í Reykjavík íbúð þeirra er staðsett. Með slíkri talningu fæst betri mynd af skiptingu íbúða í hverju hverfi. Miðbærinn, eða póstnúmer 101, er með langhæsta hlutfallið, en tæplega 60% af íbúðum vestan Elliðaár eru í því póstnúmeri.

Erfitt er að greina nákvæmlega milli póstnúmera 103, 105 og 108, en áætla má að tæplega 28% íbúðanna séu í póstnúmeri 105, en rúmlega 7% í póstnúmerum 103 og 108 samanlagt. Póstnúmer 107 er með um 5%.

Margir setja lágmarksdvöl í íbúðum

Þegar skoðuð eru ákveðin tímabil lækkar fjöldi íbúða nokkuð, en það má rekja til þess að margar íbúðir eru þegar fráteknar á næstu dögum og mánuðum. Þá skiptir líka máli hvort leitað er eftir íbúð í tvo daga eða heila viku, en fleiri niðurstöður komu ef leitað var eftir lengri tíma, enda velja margir leigusalar lágmarksdvöl. Að lokum velja margir að leigja bara út íbúðina yfir sumartímann þegar mest er að gera og hægt er að fá hæst verð.

Með því að leita eftir lausum íbúðum frá 8. til 15. október fékkst að 575 íbúðir væru lausar á því tímabili. Skipting eftir hverfum var nokkuð lík því sem fékkst þegar leitað var að öllum íbúðum, nema að Vesturbærinn hækkaði upp í um 9% á kostnað póstnúmera 103 og 108.

Vert er að taka það fram að ekki er um endanlega úttekt að ræða, þar sem ekki er hægt að nálgast nákvæmar upplýsingar um fjölda íbúða í útleigu. Þá eru fjölmargir sem nýta sér aðra vefi og aðrir sem nýta sér vefinn í skamman tíma á hverju ári, t.d. þegar þeir fara utan eða í sumarfrí á Íslandi.

Leiguíbúðir á airbnb í Reykjavík.
Leiguíbúðir á airbnb í Reykjavík. Mynd/mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK