Stjórnvöld taka af skarið í störukeppninni

Eignir slitabúa föllnu bankanna eru samtals um 2.500 milljarðar króna. …
Eignir slitabúa föllnu bankanna eru samtals um 2.500 milljarðar króna. Þar af eru erlendar eignir um 1.600 milljarðar.

Komi ekki fljótt fram tillögur frá fulltrúum slitabúa bankanna í samræmi við þau efnahagslegu skilyrði sem þeim verða kynnt á komandi hausti, líklega í september, þá má ljóst vera að frekari tilraunir til að ljúka uppgjöri þeirra með nauðasamningi séu fullreyndar. Aðrar leiðir koma þá til framkvæmda, að sögn heimildarmanna Morgunblaðsins sem þekkja vel til stöðu mála, svo hægt verði að framfylgja áformum stjórnvalda um að hefja losun fjármagnshafta. Þar séu fleiri valkostir sem komi til álita en að slitabúin fari í gjaldþrotaskipti.

Fastlega má því gera ráð fyrir að það muni dragi til tíðinda í títtnefndri störukeppni stjórnvalda og erlendra kröfuhafa áður en árið er liðið. „Við erum að tala um að þeir [kröfuhafarnir] hafi hugsanlega þrjá mánuði til stefnu,“ útskýrir viðmælandi Morgunblaðsins, „eftir að stjórnvöld hafa sett fram þau þjóðhagslegu skilyrði sem þarf að hafa til hliðsjónar við veitingu undanþágna frá fjármagnshöftum. Þeir ættu ekki að þurfa lengri tíma.“

Ráðning framkvæmdastjórnar um losun hafta og samkomulag um aðkomu erlendra ráðgjafa að verkefninu sem greint var frá fyrr í þessum mánuði markar mikil tímamót í þessu risavaxna hagsmunamáli. Á síðustu mánuðum hafa stjórnvöld, í samstarfi við Seðlabankann, unnið að undirbúningi nýrrar áætlunar um afnám hafta – og nú styttist í að henni verði hrundið í framkvæmd.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins hefur verkefnið sem framkvæmdastjórnin um losun hafta vinnur að fengið vinnuheitið „Project Irminger“ og vísar það til Irminger-straumsins sem er hafstraumur suðvestur af landinu og vermir Íslandsstrendur. Nafngiftin á verkefninu á að undirstrika mikilvægi þess að gætt verði ýtrustu hagsmuna Íslands við losun hafta en koma Irminger-straumsins upp að landinu tryggir búsetuskilyrði hérlendis. Ber straumurinn hlýjan, saltan sjó frá Golfstraumnum inn í Grænlandssund og norður fyrir Ísland.

Skilyrði um undanþágubeiðnir frá höftum

Undirbúningsvinna stjórnvalda að uppfærðri áætlun um afnám hafta hófst sl. haust. Skipaður var sérstakur sex manna ráðgjafahópur í lok nóvember til að leggja mat á stöðu þjóðarbúsins og koma með tillögur að ólíkum leiðum við afnám hafta. Skýrsla ráðgjafahópsins, en algjör samstaða var um tillögur hópsins, var kynnt helstu ráðamönnum í byrjun aprílmánaðar. Seðlabankinn útbjó einnig ítarlega greiningu á greiðslujöfnuði Íslands, að beiðni ríkisstjórnarinnar. Var niðurstaða hennar fyrst kynnt leiðtogum ríkisstjórnarinnar á kvöldfundi í forsætisráðuneytinu þann 5. mars sl. en í greiningu Seðlabankans eru meðal annars skoðaðar ýmsar sviðsmyndir – sem ná til tíu ára – um þróun á greiðslujöfnuði Íslands ef krónueignum erlendra aðila yrði hleypt úr landi.

Tillögur ráðgjafahópsins ásamt greiðslujafnaðargreiningu Seðlabankans eru hafðar að leiðarljósi í þeirri vinnu sem nú fer fram hjá framkvæmdastjórninni og hinum erlendu ráðgjöfum. Hafa ráðgjafarnir fengið ítarlega kynningu á stefnumörkun og allri undirbúningsvinnu stjórnvalda að afnámi hafa.

Nú stendur yfir vinna við að útbúa kynningu á þeim þjóðhagslegu skilyrðum sem taka mið af greiðslujafnaðarspá Seðlabankans og verða hafðar til hliðsjónar við undanþágubeiðnir frá höftum. Að því verkefni koma, ásamt framkvæmdastjórninni, ráðgjafafyrirtækið White Oak Advisory og Anne Krueger, hagfræðiprófessor við Johns Hopkins School of Advanced International Studies. Markmiðið með setningu skilyrðanna er að búa til almennan ramma þannig að beiðnir um undanþágur frá höftum, til að mynda sem slitabú föllnu bankanna sækjast eftir, geti aðeins verið samþykktar ef þær hafa ekki neikvæð áhrif á gjaldeyrisstöðu þjóðarbúsins og áform um losun hafta. Ljóst er að væntingar kröfuhafa um endurheimtur þurfa að breytast mikið ætli þeir sér að koma fram með tillögur sem verði í samræmi við þau skilyrði.

Vandinn sem Ísland stendur frammi fyrir við losun hafta er vel þekktur. Á næstu árum mun viðskiptaafgangur þjóðarbúsins ekki duga til að standa undir samningsbundnum afborgunum erlendra lána – hvað þá að hleypa út krónueignum föllnu bankanna eða aflandskrónueigendum. Áætluð áhrif af uppgjöri Glitnis, Kaupþings og gamla Landsbankans (LBI) eru talin neikvæð um 44% af landsframleiðslu, eða sem nemur 785 milljörðum. Við það bætist aflandskrónur í eigu erlendra aðila upp á 320 milljarða. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur einnig áætlað að við losun hafta myndu innlendir aðilar – lífeyrissjóðir, fyrirtæki og heimili – vilja skipta krónueignum yfir í erlendan gjaldeyri fyrir um 20-45% af landsframleiðslu. Þegar þetta er allt tekið saman er ljóst að uppsafnað gjaldeyrisútflæði, sem er núna læst undir höftum, er um það bil árleg landsframleiðsla Íslands.

Engar samningaviðræður við kröfuhafa

Slitabúin eru því helsti Þrándur í götu þess að hægt sé að stíga skref í átt að losun hafta. Íslenskir stefnusmiðir hafa ítrekað lýst því yfir að afnámsferlið geti aðeins hafist þegar fyrir liggur niðurstaða um hvernig staðið verður að uppgjöri föllnu bankanna.

Fulltrúar kröfuhafa hafa beðið með nokkurri eftirvæntingu eftir að tilkynnt yrði um ráðningu framkvæmdastjórnar og erlendra ráðgjafa til að koma að losun hafta. Meira en tuttugu mánuðir eru liðnir síðan slitabúin óskuðu fyrst eftir undanþágu frá Seðlabankanum frá höftum svo hægt yrði að ljúka uppgjöri með nauðasamningi og í kjölfarið útgreiðslu gjaldeyris til kröfuhafa – en í dag nemur laust fé þeirra yfir þúsund milljörðum. Þeim beiðnum var í reynd hafnað enda ljóst að þær hefðu haft verulega neikvæð áhrif á þróun greiðslujafnaðar og áform stjórnvalda um losun hafta.

Með aðkomu erlendra ráðgjafa að málinu standa væntingar til þess, af hálfu erlendra kröfuhafa, að samkomulag náist við stjórnvöld um skuldaskil föllnu bankanna. Ekki stendur hins vegar til hjá stjórnvöldum að hefja neinar eiginlegar samningaviðræður við kröfuhafa bankanna. Með útspili yfirvalda nú er ætlunin að opinbera þau almennu efnahagsskilyrði sem verða höfð til hliðsjónar við losun hafta þannig að tryggt sé að heildstæð lausn náist fram sem taki tillit til allra þeirra sem eru undir höftum – ekki aðeins erlendra kröfuhafa.

Á undanförnum mánuðum hafa stjórnvöld skynjað vaxandi skilning – og stuðning – af hálfu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins við þá leið sem hefur verið mörkuð í afnámsferlinu, ekki síst nú þegar gengið hefur verið frá ráðningu þekktra erlendra ráðgjafa. Slíkt eykur til muna trúverðugleika við þá umgjörð sem hefur verið komið á fót í kringum afnámsferlið. Að sögn heimildarmanna hefur AGS fengið ítarlega kynningu á þeirri skýrslu sem unnin var af ráðgjafahópnum og þeim sjónarmiðum, bæði efnahags- og lagalegum, sem hópurinn lagði upp með að væri framfylgt við afnám hafta. Þetta hafi skilað þeim ávinningi að sjóðurinn sé orðinn mjög meðvitaður um hvaða augum stjórnvöld líta á vandann og þær leiðir sem þau telji færar í þeim efnum. Hefur sjóðurinn tekið undir með stjórnvöldum að mikilvægt sé að útiloka þar ekki neina valkosti. Slíkt sé nauðsynlegt til að skapa hvata fyrir kröfuhafa um að koma með lausn að borðinu sem sé ásættanleg út frá greiðslujafnaðarvanda Íslands.

Fleiri leiðir skoðaðar en gjaldþrotaskipti

Stjórnvöld hafa sett sér skýra tímalínu varðandi framgang áætlunar um losun hafta til næstu mánaða. Takist kröfuhöfum ekki að koma fram með tillögur að nauðasamningi sem séu í samræmi við hin þjóðhagslegu skilyrði verður gripið til annarra úrræða svo uppgjör slitabúanna standi ekki í vegi fyrir því að hægt verði hrinda í framkvæmd afnámi hafta. Fyrir utan gjaldþrotaskipti eru aðrir valkostir til skoðunar, samkvæmt heimildum, meðal annars að einangra búin með lagasetningu. Bandaríska lögmannsstofan Cleary Gottlieb Steen & Hamilton vinnur nú að því að kortleggja þær leiðir sem eru færar í þessum efnum – og hvað þurfi að varast út frá lagalegri áhættu. Að þeirri vinnu kemur James Bromley, einn fremsti lögfræðingur Bandaríkjanna á sviði gjaldþrotaréttar og fjárhagslegrar endurskipulagningar.

Grunnsjónarmið stjórnvalda við afnám hafta munu byggjast á þeirri lagalegu umgjörð sem liggur fyrir um slitameðferð bankanna og að tryggja jafnræði undir höftum. „Þetta er algjörlega ný nálgun,“ útskýrir viðmælandi Morgunblaðsins. Erlendar eignir föllnu bankanna séu ekki lengur teknar út fyrir sviga, líkt og kröfuhafar hafi alltaf gert ráð fyrir. „Það er búið að brjóta upp þá sviðsmynd enda ljóst að kröfuhafar eiga aðeins kröfur í krónum á íslensk slitabú. Stjórnvöldum ber því skylda að nýta sér þá lagalegu stöðu til að tryggja niðurstöðu í þessu máli sem ógnar ekki efnahagslegum stöðugleika Íslands.“

Kortið má nálgast í pdf-skjali neðst í greininni.
Kortið má nálgast í pdf-skjali neðst í greininni.
Áætlun um afnám hafta hefur verið gefið vinnuheitið „Project Irminger“.
Áætlun um afnám hafta hefur verið gefið vinnuheitið „Project Irminger“. Jim Smart
Jeremy Lowe (í fremstu sætaröð til hægri) á kröfuhafafundi Glitnis …
Jeremy Lowe (í fremstu sætaröð til hægri) á kröfuhafafundi Glitnis 9. apríl en hann stýrir Burlington Loan Management, stærsta einstaka kröfuhafa föllnu bankanna. mbl.is/Þórður Arnar
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK