Erlendir nemendur streyma í orkunám

Hluti þeirra nemenda sem hefja nám við orkuháskólann í ár.
Hluti þeirra nemenda sem hefja nám við orkuháskólann í ár. Mynd/HR

Rúmlega 350 erlendir nemendur munu sækja Ísland heim vegna náms í íslenska orkuháskólanum við Háskólann í Reykjavík næstkomandi haust. Alls munu tæplega 400 manns sækja lengra og styttra nám á sviði orkumála við skólann, en þetta er margföldun frá fyrra ári þegar nemendur voru um hundrað.

Bandaríkin og Kanada stór í ár

Skólinn var stofnaður árið 2008 og hefur áhugi á náminu vaxið mikið síðan. Halla Hrund Logadóttir, framkvæmdastjóri skólans, segir í samtali við mbl.is að nemendur komi allsstaðar úr heiminum, en mesta ásóknin sé frá Kanada og Bandaríkjunum. Þá séu einnig fjölmargir nemendur frá Norðurlöndunum og öðrum ríkjum Evrópu.

Á bak við orkuháskólann standa auk HR Íslenskar orkurannsóknir og Orkuveita Reykjavíkur, en Halla segir að mikill aðgangur nemenda að þessum fyrirtækjum og verkfræðistofum sem starfa á orkusviði ýti undir vinsældir námsins. Þá segir hún þetta einnig mikilvægt fyrir íslenska iðnaðinn í heild sinni.

Hún segir að horfa þurfi á stóru myndina þegar kemur að endurnýjanlegri orku. Hingað til hafi Íslendingar verið framarlega á þessu sviði og haft nokkuð öruggan stað þar. Nú sé þróunin aftur á móti mjög hröð og margir að gera tilkall til þess að standa þar fremst.

Skapar mikilvægt tengslanet

Til þess að íslenski orkuiðnaðurinn standi framarlega sé því nauðsynlegt að búa yfir góðu námi, ná góðum samskiptum og tengslum við erlenda aðila og viðhalda þekkingu hjá íslenskum fyrirtækjum. Halla segir að með þessum mikla fjölda erlendra nemenda megi gera ráð fyrir því að tengslanet íslenskra fyrirtækja muni áfram aukast til muna, en svona nám sé ein besta markaðssetning sem Ísland geti fengið á þessu sviði. „Þarna eru 300-400 manns í þessum geira að koma hingað til lands á hverju ári. Þetta verður ótrúlegt tengslanet eftir tíu ár og mun nýtast vel til að fá verkefni eða starfa erlendis,“ segir Halla.

Margir nemendur hafa áhuga á jarðvarma að sögn Höllu, en ekki síður nýjum verkefnum sem eru í gangi hér á landi s.s. vindmyllum Landsvirkjunar og verkefninu Startup Energy Reykjavík. Þetta spili allt rullu í að gera Ísland og HR að ákjósanlegum stað fyrir nemendurna.

Meistaranemar við háskólann verða um 30 talsins, en nemendur við styttra námskeið eru um 370. Aðspurð um samanburð við erlenda skóla segir Halla að í dag séu margir að horfa í þessa átt.  „Það er bullandi samkeppni á sviði endurnýjanlegrar orku,“ segir hún og að aðsóknin hingað sé til marks um hversu vel skólinn sé metinn.

Halla Hrund Logadóttir, framkvæmdastjóri orkuháskólans.
Halla Hrund Logadóttir, framkvæmdastjóri orkuháskólans. Mynd/HR
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK