Rússland dæmt til að greiða gífurlegar skaðabætur

Rússland þarf að greiða tæplega 6.000 milljarða króna vegna málsins. …
Rússland þarf að greiða tæplega 6.000 milljarða króna vegna málsins. Það eru um 2,5% af landsframleiðslu landsins. AFP

Alþjóðadómstóllinn í Haag hefur dæmt rússneska ríkið til að greiða hópi fyrrverandi hluthafa í olíurisanum Yukon 51,6 milljarð Bandaríkjadala, sem nemur tæplega 6.000 milljörðum íslenskra króna. 

GML, félagið sem höfðaði málið, fór fram á 114 milljarða dala bætur, en það segir að rússnesk stjórnvöld hafi undirverðlagt eignir fyrirtækisins þegar það var sett í þrot vegna skattaskulda. 

Megintilgangurinn pólitískur

Í úrskurði dómsins segir að fyrirtækið hafi orðið fyrir pólitískum árásum rússneskra stjórnvalda sem leiddu að lokum til falls fyrirtækisins. Vitað er í dóminn á vefsíðu Reuters:  „Megintilgangur rússneska ríkisins var ekki að innheimta skatta heldur frekar að gera Yukos gjaldþrota og nálgast verðmætar eignir þess,“ segir í dómnum.

Utanríkisráðherra Rússlands, Sergei Lavrov, hefur þegar sagt að ákvörðuninni verði áfrýjað, en bent hefur verið á að ekki sé mikið um kosti í stöðunni til að áfrýja. Dómur alþjóðadómstólsins er nokkuð skýr og Tim Osborne segir að ekki sé hægt að deila um hann. Nú sé aftur á móti spurning hvort honum verði framfylgt og hvort sóknaraðilar muni fá bæturnar greiddar.

Kemur á versta tíma fyrir Rússland

Dómurinn kemur á versta tíma fyrir Rússland, en það stendur frammi fyrir alþjóðlegum þvingunum vegna ástandsins í Úkraínu og reiði vegna malasísku flugvélarinnar sem skotin var niður nýlega. Þá er efnahagsvöxtur einnig á niðurleið og gæti dómurinn orðið til þess að matsfyrirtæki endurskoði mat sitt á Rússlandi.

2,5% af landsframleiðslu Rússlands

Upphæðin sem Rússland var dæmt til að greiða er um 2,5% af landsframleiðslu ríkisins, en Yukon var með stærstu fyrirtækjum landsins og meðal stærri olíufyrirtækjum heims á sínum tíma. 

Ákvörðunin hafði áhrif á markaði í Rússlandi í dag, en bréf í RTS-vísitölunni lækkuðu um 2,8% eftir að dómurinn var birtur.

Ólíklegt að krafan verði greidd

Sérfræðingar í málefnum Rússlands segja ólíklegt að landið muni greiða þessar bætur og að við taki eltingaleikur GML við að sækja eignir Rússlands erlendis, en slíkt er bæði erfitt og óljóst er hver árangur af slíku er. T.d. mega eignirnar ekki vera í formi sendiráðsbygginga eða hertækja.

Yukos var áður stjórnað af Mikhail Khodorkovsky, en hann var árið 2003 handtekinn vegna skattalagabrotanna. Málið hefur lengi verið talið sprottið af pólitískum rótum, en Khordorkovsky var einn ríkasti maður Rússlands og var byrjaður að blanda sér í pólitík gegn Vladimir Pútín, forseta Rússlands. Hann sat í fangelsi þangað til á síðasta ári, þegar Pútín náðaði hann stuttu áður en Ólympíuleikarnir voru haldnir í Sochi. 

Á Pútín ríka hagsmuni af málinu?

Khodorkovsky mun ekki fá neinn hlut í bótunum, en árið 2005, þegar hann var dæmdur flutti hann hlut sinn í félaginu yfir til Leonids Nevzlin, viðskiptafélaga síns sem náði að flýja til Ísraels. Nevzlin stendur fyrir um 70% af kröfunum sem gerðar voru á Rússland, en Platon Lebedev, Mikhail Brudno, Vladimir Dubov og Vasilly Shaknovski eru einnig á bakvið hann í málaferlunum.

Fyrirtækið sem keypti eignir Yukos er rússneska félagið Rosneft, en það er eitt tveggja stærstu olíufyrirtækja heims. Umtalað er að Pútín sé hluthafi í Rosneft og öðrum félögum sem komu að viðskiptafléttunni á bakvið kaupin, en það hefur ekki verið sannað.

Lesa má nánari umfjöllun um málið og meint tengsl Pútíns við málið á bloggi Ketils Sigurjónssonar.

Mikhail Khodorkovsky var áður ríkasti maður Rússlands en var dæmdur …
Mikhail Khodorkovsky var áður ríkasti maður Rússlands en var dæmdur í fangelsi vegna skattalagabrota. Hann var náðaður árið 2013, en hann átti stóran hluta í Yukon. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK