Selja herraföt í sögufrægu húsi

Jón Davíð Davíðsson og Sindri Snær Jensson opna bráðum herrafataverslun …
Jón Davíð Davíðsson og Sindri Snær Jensson opna bráðum herrafataverslun á Hverfisgötu. mbl.is/Þórður

„Sérstaða verslunarinnar er fyrst og fremst sú að hún selur eingöngu herrafatnað. Þannig munu karlmenn á öllum aldri eignast góðan stað til að koma á í rólegheitum og finna sér fatnað við hæfi,“ segir Sindri Snær Jensson, sem mun brátt opna herrafataverslunina Húrra Reykjavík á besta stað í miðbæ Reykjavíkur með félaga sínum og æskuvini, Jóni Davíð Davíðssyni.

Vörurnar verða það sem kallað er vandaður hversdagsfatnaður, innblásinn af skandínavískri hönnun og einfaldri götutísku, sem hefur jafnframt mikið notkunargildi.

Verslunin verður á horni Hverfisgötu 50, til móts við Vatnsstíg, í sögufrægu húsi sem var byggt árið 1906. Bára bleika rak þar í fjölmörg ár verslunina Hjá Báru, sem margir muna eflaust eftir.

Urðu ástfangnir af húsinu

Sindri Snær segir að þeir hafi strax orðnir ástfangnir af húsinu. „Við sögðum strax: „Þetta er málið“ og settum okkur í samband við fasteignasalann. Það kom reyndar á daginn að mikil samkeppni var um húsið en við börðumst fram á síðustu mínútu,“ útskýrir hann í samtali við mbl.is.

„Við getum ekki verið ánægðari og erum enn þann dag í dag ástfangnir af þessu sögufræga húsi. Og það á einmitt eftir að leggja grunninn að búðinni, hvernig húsið er, og að Bára bleika hafi jafnframt verið þarna með verslun í áratugi.“ 

Sindri Snær er markvörður hjá KR í knattspyrnu og mikill áhugamaður um tísku, en hann hefur haldið úti tískubloggsíðunni Sindrijensson.com um nokkurt skeið. Jón Davíð hefur starfað sem verslunarstjóri í Húsgagnahöllinni undanfarin tvö ár, en hefur lengi haft áhuga á fötum og tísku.

Kom aldrei annað en miðbærinn til greina

„Hugmyndin hefur verið að gerjast lengi,“ segir Sindri Snær. „Ég flutti erlendis í byrjun árs 2013 og starfaði í fataverslun í Kaupmannahöfn. Það má segja að þar hafi ég kynnst nýrri hlið á þessum málum og fengið enn meiri löngun til að yfirfæra það sem ég lærði yfir á íslenskan markað. Mér hefur lengi þótt vanta aðeins upp á betri fatamenningu hjá karlmönnum hér heima.

Það var síðan um seinustu áramót að við Jón Davíð ákváðum að láta slag standa,“ segir Sindri Snær. Hann flutti heim í byrjun aprílmánaðar og færðist þá meiri alvara í vinnuna.

Aðspurður segir hann það aldrei hafa komið til greina að hafa verslunina annars staðar en í miðbænum. Ímynd verslunarinnar sé slík og þá beri þeir sig saman við aðrar verslanir í Skandinavíu, og víðar, sem séu miðsvæðis í stórborgum.

Hann bendir einnig á að líf hafi óðum verið að færast í Hverfisgötuna, hún iði raunar af lífi og henti þess vegna afar vel. „Við sjáum það fyrir okkur að Hverfisgatan verði ein af þremur stærstu götunum í miðbænum. Það verður Laugavegurinn, sem verður áfram aðalæðin, Skólavörðustígur og Hverfisgatan.“

Þá séu sértækustu og skemmtilegustu verslanirnar enn fremur oft í hliðargötum erlendis. „Það eru margir sem gera sér leið í hliðargöturnar. Þar eru sértækari verslanir á meðan, og ég meina það nú ekki á neikvæðan hátt, það er meira um lundabúðir fyrir ferðamenn á Laugaveginum,“ segir Sindri Snær og hlær.

Finna ekki upp hjólið

Hvar sækið þið innblástur?

„Við erum ekki að finna upp hjólið, enda er líka erfitt að finna það upp aftur. Við sækjum helst innblástur í verslanir í Kaupmannahöfn og einnig í Svíþjóð. Það eru nokkrar verslanir sem við erum mjög hrifnir af í Stokkhólmi og Malmö, svo dæmi séu tekin. Tískan í Kaupmannahöfn er frekar afslöppuð og hefur enn fremur mikið notagildi. Þannig er innblásturinn tiltölulega skandinavískur,“ segir Sindri Snær.

Hann tekur einnig fram að þeir hafi fundið fyrir miklum meðbyr, allt frá því að hugmyndin var fyrst kynnt „Við erum eingöngu herrafataverslun sem er ekki mjög algengt í Reykjavík í dag. Það eru til annars konar herrafataverslanir, eins og Kormákur og Skjöldur, og einnig eldri verslanir á borð við Herrafataverslun Birgis. Við erum í rauninni að sækja á miklu stærri markað. Við ætlum að höfða til karlmanna á öllum aldri sem vilja vera í vönduðum og góðum hversdagsfatnaði. Það er sérstaðan.“

Styttist óðum í opnun

Framkvæmdir eru í fullum gangi og stefna þeir félagarnir að því að opna verslunina í byrjun septembermánaðar með flottu partíi. „Við erum að horfa til fimmtudagsins 4. september. Það styttist í það. En vörurnar eru þegar farnar að streyma til okkar og er góður gangur í framkvæmdunum. Það ætti að geta gengið upp,“ nefnir Sindri Snær að lokum.

Loks er líf kviknað á ný á Hverfisgötunni.
Loks er líf kviknað á ný á Hverfisgötunni. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK