Hagnaður Vodafone 210 milljónir

Höfuðstöðvar Vodafone í Skútuvogi.
Höfuðstöðvar Vodafone í Skútuvogi. mbl.is/Ómar

Hagnaður Fjarskipta ehf. (Vodafone) á öðrum fjórðungi ársins nam 210 milljónum króna og jókst um 1% frá fyrra ári. Tekjur félagsins jukust jafnframt um 1% á ársfjórðunginum en 2% á fyrstu sex mánuðum ársins. Hagnaðaraukningin á fyrri helmingi ársins var 49%.

Í tilkynningu frá félaginu segir að framlegð þess hafi hækkað um 6% á fjórðunginum og alls um 9% á fyrstu sex mánuðum ársins. Kostnaður við forstjóraskiptin í maí nam enn fremur 53 milljónum króna, en þá tók Stefán Sigurðsson við starfinu af Ómari Svavarssyni.

EBITDA ársfjórðungsins, þ.e. rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði, nam 671 milljón króna og lækkaði um 8% á milli ára. EBITDA á fyrri helmingi ársins hækkaði aftur á móti um 3%.

Stefán segir í tilkynningunni að rekstur félagsins á ársfjórðunginum hafi verið ágætur, sérstaklega þegar tekið sé tillit til mikillar vinnu tengdum öryggismálum og ISO 27001 vottun félagsins og kostnaðar sem féll til á tímabilinu vegna forstjóraskipta.

„Samhliða styrkingu innviða voru mikilvæg skref stigin á ýmsum sviðum á tímabilinu. Nýjar vörur voru innleiddar og áfram var haldið með fjárfestingar í kerfum sem eru mikilvæg fyrir tekjuöflun Vodafone til framtíðar. Félagið hefur þannig tekið forystu í 4G þjónustu með markvissri fjárfestingu í farsímakerfinu og á sama tíma styrkt verulega sjónvarps- og útvarpsdreifikerfi Vodafone sem mun á árinu ná til 99,8% landsmanna. Þessar fjárfestingar eru mikilvægur grundvöllur  framtíðar tekjusköpunar félagsins,“ segir Stefán jafnframt.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK