Heillaðist tólf ára af hagfræði

Hafsteinn Gunnar Hauksson hefur starfað hjá greiningardeild Arion banka undanfarin …
Hafsteinn Gunnar Hauksson hefur starfað hjá greiningardeild Arion banka undanfarin tvö ár en hefur nám í fjármálahagfræði við London School of Economics í haust. mbl.is/Þórður

Ungi hagfræðingurinn Hafsteinn Gunnar Hauksson hefur hlotið hinn svonefnda Chevening-styrk til framhaldsnáms á komandi vetri við breska háskólann London School of Economics. Í samtali við mbl.is segist Hafsteinn vera ótrúlega þakklátur bæði breska sendiráðinu á Íslandi og bresku utanríkisþjónustunni fyrir styrkinn.

Styrkveitingin fór nýlega fram við hátíðlega athöfn hjá breska sendiráðinu og tók Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra þátt í því að afhenda styrkinn. Hann er sjálfur fyrrverandi Chevening-styrkhafi.

Chevening styrkir, sem áður hétu British Council skólastyrkir og seinna FCOSAS, hafa verið veittir Íslendingum frá stríðslokum, en íbúar um 160 ríkja geta sótt um styrkina.

Hafsteinn útskrifaðist sem hagfræðingur frá Háskóla Íslands fyrir tveimur árum og hefur síðan þá starfað hjá greiningardeild Arion banka. Hann segist nú aðeins ætla að skipta um kúrs frá því sem var í grunnnáminu. 

Tólf ára á fyrirlestur hjá Gylfa Magnússyni

„Í náminu var ég mjög upptekinn af þjóðhagfræði, peningastefnu og öðru slíku. En síðan byrja ég að vinna í bankanum árið 2012 og heillast þá meira af fjármálahliðinni, ef svo má segja, og færi mig meira yfir í þessa svokölluðu „micro“-hlið, þ.e.a.s. hvernig fyrirtæki eiga samskipti hvert við annað og hvaða hlutverki fjármálamarkaðir gegna í samfélaginu. Ég er nú að fara í nám í fjármálahagfræði þar sem ég þrengi fókusinn í takt við þessar nýju áherslur,“ segir hann.

En hvernig kviknaði hagfræðiáhuginn til að byrja með?

Hafsteinn rifjar upp að fyrir rúmum áratug, þegar hann var ungur að árum, tólf eða þrettán ára gamall, hafi kvikmyndin A Beautiful Mind komið út. „Hún fjallar um æviskeið John Nash sem er eitt af stóru nöfnunum í hagfræði og leikjafræði. Ég man vel eftir því þegar mamma mín fór með mér einn daginn á fyrirlestur hjá Gylfa Magnússyni upp í háskóla, þar sem hann var einmitt að fjalla um leikjafræði.

Ég upplifði það þannig að þarna var komið greiningartól sem gaf nokkuð einstaka sýn inn í það hvernig einstaklingar taka ákvarðanir og eiga í samskiptum. Það er það sem heillar mig langmest við hagfræðina. Þetta er tæki sem gefur manni miklu betra færi á að skilja hvernig samfélög virka og hvernig fólk á í samskiptum sín á milli heldur en margt annað,“ útskýrir hann.

Á að baki glæsilegan fjölmiðlaferil

Hafsteinn hefur ekki aðeins starfað hjá Arion banka, heldur á hann að baki glæsilegan fjölmiðlaferil, sér í lagi ef tekið er tillit til þess að hann er aðeins 25 ára gamall. Hann hefur starfað á veftímaritinu Panama, DV, Vísi og fréttastofu Stöðvar 2, þar sem hann vakti athygli fyrir einkar lifandi og skemmtilegar fréttir.

Hagfræðin hefur hins vegar ávallt átt hug hans allan. „Eins og staðan er núna finnst mér mjög gaman að vinna í fjármálageiranum og ég hugsa að það verði það sem ég mun fást við á næstu árum. Það er einnig ótrúlega gaman að geta starfað hjá greiningardeild, þar sem maður getur tekið þátt í þjóðfélagsumræðunni og lagt eitthvað af mörkum. Það væri mjög skemmtilegt ef maður gæti haldið því áfram.“

London School of Economics er glæsilegur skóli.
London School of Economics er glæsilegur skóli.
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK