Ekki bíða eftir dansinum

Sigríður Snævarr, María Björk Óskarsdóttir og Guðmunda Smáradóttir, forstöðumaður Opna …
Sigríður Snævarr, María Björk Óskarsdóttir og Guðmunda Smáradóttir, forstöðumaður Opna háskólans í HR. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Ekki bíða eftir að aðrir komi og setji kórónu á höfuð þér. Þú verður að stíga fram og grípa hana. Þetta segir Sigríður Snævarr, sendiherra, sem ásamt Maríu Björk Óskarsdóttur, viðskiptafræðingi, stendur að námskeiðinu „Nýttu kraftinn og vertu öflugri stjórnandi“ í Háskólanum í Reykjavík.

Þar verður lögð áhersla á valdeflingu og samkeppnisforskot einstaklingsins út frá styrkleikum hans, ástríðu og eldmóði byggt á ákveðinni sjálfskoðun. „Ennfremur viljum við með stjórnendaþjálfuninni gefa hugmyndir að því hvernig hægt er efla samskiptafærni, sjálfstraust og frumkvæði, byggja upp og virkja öflugt tengslanet og árangursríkt mentorasamband,“ segir María Björk.

Sigríður bendir á að sjálfstraust verði ekki keypt og fáir séu fæddir með það, heldur sé hægt að tileinka sér ákveðna aðferðafræði, æfa sig og vera óhræddur við að láta bara vaða, það komi yfirleitt eitthvað gott út úr slíkri áræðni. „Ég horfi á fólk í kringum mig sem hefur ekki notið sín í lífinu og það er svo hryllilegt að sjá það sitja bara og bíða eftir að einhver bjóði sér í dans. Ef þú vilt gera breytingar og halda áfram að þróast þá verður þú að stíga fram,“ segir hún.

Allir hafa gott af innblæstri

Sigríður og María Björk hafa frá árinu 2008 staðið fyrir námskeiðunum „Nýttu kraftinn“ fyrir fólk í atvinnuleit auk þess að hafa gefið út samnefnda bók í mars 2013.  Um 1.100 manns hafa sótt námskeiðin með góðum árangri en nú hyggjast þær breyta til og halda námskeið fyrir núverandi stjórnendur og þá sem stefna að stjórnunarstöðum í framtíðinni. Þær stöllur eru mjög ánægðar með samstarfið við Háskólann í Reykjavík enda Opni Háskólinn svo tengdur atvinnulífinu og því alveg rétti vettvangurinn fyrir stjórnendaþjálfunina.

„Við erum í raun að svara ákveðinni eftirspurn því við höfum ítrekað fengið spurningar frá fólki sem er á vinnumarkaði en vill efla sig persónulega og í starfi og hefur þótt Nýttu kraftinn svo áhugavert. Það hafa allir gott af smá innblæstri, ekki síst sjórnendur sem oftar en ekki eru svo einir í sínu. Nú viljum við gefa stjórnendum kost á að styrkja sig undir okkar handleiðslu þar sem við vinnum með ýmsa þætti úr Nýttu kraftinn sem við teljum að gagnist þeim vel, dýpkum nálgunina sumstaðar og bætum inn nýju efni. Alveg ótrúlega spennandi áskorun,“ segir María Björk.

Máta sig við aðra

Sigríður og María Björk segja áhugavert að koma fólki í svipaðri stöðu saman. Það geti þannig borið sig saman, skipst á hugmyndum og unnið verkefni. „Við ætlum markvisst að vinna með hópinn og kraftinn sem verður til í honum.“ Sigríður segir aðferðarfræðina byggja á ævafornri reglu sem rekja megi aftur til Sókratesar. En sé þó jafn góð fyrir því enda mikið notuð hjá OECD. „Þú setur fólk í hóp og lætur alla tala. Það sem gerist er að fólk fer að máta sig hvert við annað. Alveg ósjálfrátt. Þú ferð að hugsa: „Ef allir þessir eru að gera þetta, þá get ég það líka og jafnvel meira til“. Þá fara að koma fram fullt af hugmyndum og þessi dásamlegi fjölbreytileiki myndast,“ segir Sigríður.

Hver manneskja í tengslanetinu er auðlind

Öflugt tengslanet er eitt það allra mikilvægasta fyrir hverja manneskju. Það er eitt að mynda tengsl en annað halda í þau og byggja upp. „Þú ert annars vegar fædd inn í ákveðið tengslanet og ræður í raun engu um það. En síðan bætast sífellt við fleiri hringir og það er undir þér komið hvort þú missir þetta fólk úr lífi þínu,“ segir Sigríður og bætir við að nauðsynlegt sé að horfa á hverja einustu manneskju sem auðlind. „Þá nærðu alveg gríðarlegum árangri,“ segir hún.

María Björk tekur þá fram að vissulega eigi ekki að notfæra sér aðra en bendir á að fólk geti hagnast hvort á öðru á jákvæðan hátt og orðspor skipti þar öllu máli. Aðspurð hvernig fólki sé kennt að mynda tengslanet segir hún tækni liggja á bak við kortlagningu þess en þá þurfi einnig að virkja það og bæta. „Það þarf að gera þetta vel því þetta er svo mikilvægt út frá ólíkum þáttum; bæði út frá starfinu og persónulega,“ segir María. „Við ætlum líka að taka umræðuna um árangursríkt mentorasamband og hversu gott það getur verið fyrir stjórnendur til að spegla sig í einstaklingum sem þeir bera virðingu fyrir og vita að muni ráða sér heilt. Við munum auðvitað kenna okkar aðferðir við að koma á skipulögðu mentorafyrirkomulagi.“

Frumkvæði er lykillinn

Aðspurðar hvort konur og karlar séu á einhvern hátt mismunandi þegar að því kemur að sækja fram segja þær konurnar stundum skorta kjark til þess að spyrja. „Stígðu fram vegna þess að þú færð engin völd afhent og þér verður ekki gefin staða án þess að þú biðjir um hana,“ segja þær. „Konur óttast oft viðbrögðin og það er sterkt í konum að vilja ekki ónáða,“ segir Sigríður. María Björk bætir við að frumkvæði sé lykillinn. „Að fá „nei“ er ekki endalok alheimsins. Það er bara eitt orð. Ef þú spyrð aldrei ertu bara alltaf í einhverjum kassa og kemst ekki út.“

Þær segja námskeiðið fyrir stjórnendur á öllum aldri, báðum kynjum og engin krafa er gerð um fyrri menntun, fyrst og fremst að viðkomandi sjái tækifæri í því að efla sig sem stjórnandi. „Fólk vill í æ meira mæli fá nýjar hugmyndir til að næra sig og halda áfram persónulegri þróun. Þetta á að vera tækifæri og vettvangur til þess,“ segir María Björk.

Námskeiðið verður haldið dagana níunda, tíunda og fjórtánda október frá klukkan 9 til 13 auk eftirfylgni þann 13. nóvember frá klukkan 13 til 17. Skráning fram á http://www.ru.is/stjornun-og-stefnumotun/nyttu-kraftinn

Námskeiðið verður haldið í Háskólanum í Reykjavík.
Námskeiðið verður haldið í Háskólanum í Reykjavík. Ómar Óskarsson
Námkeið Sigríðar og Maríu Bjarkar reyndist vel fyrir atvinnulausa.
Námkeið Sigríðar og Maríu Bjarkar reyndist vel fyrir atvinnulausa. Golli / Kjartan Þorbjörnsson
Námskeiðinu er ætlað að hjálpa fólki að byggja upp tengslanet …
Námskeiðinu er ætlað að hjálpa fólki að byggja upp tengslanet og viðhalda því. Rax / Ragnar Axelsson
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK