ARM Verðbréf viðurkenndur ráðgjafi

Kauphöll Íslands tilkynnti í dag að fyrirtækið ARM Verðbréf hf. hefði verið samþykkt sem viðurkenndur ráðgjafi fyrirtækja við skráningu verðbréfa á hlutabréfa- og skuldabréfamarkað First North Iceland og á meðan viðskipti eru með verðbréf viðkomandi fyrirtækja á markaðnum. First North er markaðstorg rekið af kauphöllunum á Norðurlöndunum.

„Við erum afar ánægð með að ARM Verðbréf skuli vera gengið í raðir viðurkenndra ráðgjafa og bjóðum fyrirtækið hjartanlega velkomið í hópinn,“ er haft eftir Kristínu Rafnar, forstöðumanni skráningarsviðs Kauphallarinnar í tilkynningu. „Vitund er að aukast um mikilvægi betri aðgangs að fjármagni fyrir fyrirtæki í vexti. Framfaraskref kunna að vera skammt undan í þeim efnum og First North getur þar gegnt lykilhlutverki og aukið tækifærin svo um munar. Það er ánægjulegt fyrir þessi fyrirtæki að ARM Verðbréf hafi nú bæst í hóp þeirra ráðgjafa sem geta veitt þeim faglega ráðgjöf fyrir skráningu á First North.“

„Markaðurinn er ekki bara fyrir stór fyrirtæki enda er drifkraftur nýsköpunar og hagvaxtar hjá smáum og meðalstórum fyrirtækjum. Skráning á First North getur aukið verðmætasköpun fyrirtækja og við erum ánægð að vera komin í hóp aðila sem eru viðurkenndir ráðgjafar á First North Iceland,“ segir Karl Þorsteins, hjá ARM Verðbréfum, í yfirlýsingu.

Hlutverk viðurkennds ráðgjafa felst einkum í að vera félögum til halds og trausts þegar skráningarferli stendur yfir og vera ráðgjafi og milliliður í samskiptum við markaðinn meðan verðbréf félags eru í viðskiptum. Það er á ábyrgð viðurkennds ráðgjafa að fylgjast með því að félög uppfylli ávallt þær aðgangskröfur og upplýsingaskyldu sem gildir á First North Iceland.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK