Skortir pólitíska forystu um hagræðingu

Hagræðingartillögur heyra undir mismunandi ráðuneyti og þarf hver ráðherra því …
Hagræðingartillögur heyra undir mismunandi ráðuneyti og þarf hver ráðherra því að vera tilbúinn að beita sér pólitískt fyrir þeim. mbl.is/Ómar Óskarsson

Innleiðing tillagna hagræðingarhóps hefur ekki gengið jafn vel og vonast var eftir og liggur orsökin í aðferðarfræðinni sem beitt hefur verið auk þess sem pólitíska forystu skortir um innleiðingu þeirra. Þá hefði hagræðingarhópurinn betur forgangsraðað tillögunum til að auðvelda framkvæmd þeirra.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri skýrslu Viðskiptaráðs og Björn Brynjúlfur Björnsson, hagfræðingur ráðsins, ræddi á morgunfundi um aðhald í ríkisfjármálum á Grand hótel í morgun.

Hagræðingarhópurinn var skipaður í júlí 2013 og var honum ætlað að að leggja fram tillögur um aukna hagræðingu í ríkisrekstri – tillögur sem myndu gera hinu opinbera kleift að veita sömu þjónustu með hagkvæmari hætti. Hópurinn skilaði af sér 111 tillögum í nóvember sama ár sem skipt var í tólf flokka eftir helstu málaflokkum í opinberum rekstri. Samkvæmt opinberum upplýsingum er vinna ekki hafin við innleiðingu 54% þeirra, 25% eru í undirbúningi, 13% í vinnslu, 1% í þinglegri meðferð og 6% hafa verið innleiddar en sem dæmi um tillögu sem hefur verið innleidd má nefna fækkun sýslumanns- og lögregluembætta.

Ekki raunverulegt aðhald

Í skýrslu Viðskiptaráðs kemur fram að við aðhald síðustu ára hafi ekki verið lögð áhersla á aukna skilvirkni í ríkisrekstri heldur hafi aukning skatttekna og samdráttur í fjárfestingum staðið undir 86% af rekstraraðlögun síðustu ára. Einungis 14% af aðlöguninni má rekja til lækkunar rekstrarútgjalda og hefur enginn samdráttur orðið í launakostnaði á tímabilinu. „Samdráttur í fjárfestingum er ekki vænleg leið til að brúa halla í ríkisfjármálum. Afleiðing slíkrar stefnu verður óhjákvæmilega aukinn kostnaður í viðhaldi og nýfjárfestingum í framtíðinni sem og veiking í innviðum og þar með minni gæði opinberrar þjónustu,“ segir í skýrslunni og bætti Björn við í morgun að verið væri að ýta vandanum á undan sér. „Þetta er ekki raunverulegt aðhald í ríkisfjármálum,“ sagði hann.

Þá segir að efnahagslegar forsendur séu til staðar fyrir fækkun ríkisstarfsmanna. „Ríkisstarfsmönnum hefur fækkað um þrjú prósent frá árinu 2009 en launin hafa hækkað um þrjú prósent á sama tíma, sem þýðir að útgjöldin hafa staðið í stað. Ef við lítum aftur til aldamóta má sjá að þeim hefur fjölgað um þrjátíu prósent á meðan fjölgunin hefur verið um tíu prósent í einkageiranum,“ sagði Brynjúlfur.

Róm var ekki byggð á einum degi

Ásmundur Einar Daðason, þingmaður Framsóknarflokks og formaður hagræðingarhópsins, sagði á fundinum í morgun að ljóst hefði verið frá upphafi að vinna við framkvæmd tillagnanna myndi taka tíma. „Róm var ekki byggð á einum degi,“ sagði hann og bætti við að henni yrði ekki heldur breytt á einum degi. „Þetta eru flóknar breytingar sem margir þurfa að koma að, bæði í stjórnkerfinu, pólitíkinni og hagsmunaaðilar,“ sagði hann og benti á að tillögurnar heyri undir mismunandi ráðuneyti og þurfi hver ráðherra því að vera tilbúinn til að beita sér pólitískt fyrir þeim. 

Björn Brynjúlfur Björnsson
Björn Brynjúlfur Björnsson Mynd af vefsíðu Vðiskiptaráðs
Ásmundur Einar Daðason, þingmaður Framsóknarflokksins.
Ásmundur Einar Daðason, þingmaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK