Í rúminu með vinkonu eiginkonunnar

Frá héraðsdómi í dag
Frá héraðsdómi í dag mbl.is/Þórður

„Hvað ætlið þið að segja við FME þegar spurst verður fyrir um þennan aðila sem er skráður í Panama (of all places) með þessa háu ábyrgðarfyrirgreiðslu. Klóra sér í hausnum og segja: „I can explain. I can explain everything!“ (eins og karlinn sagði sem ráfaði inn í vitlaust herbergi og lenti fyrir vikið upp í rúmi með vinkonu eiginkonunnar),“  sagði í tölvupósti frá Tryggva Jónssyni, fyrrverandi starfsmanni í útlánaeftirliti Landsbankans til Ingimundar Sigurmundssonar, forstöðumanns útlánaeftirlits bankans, þann 12. september 2008.

Tölvupósturinn varðaði sjálf­skuld­arábyrgð Lands­bank­ans á lána­samn­ing­ af­l­ands­fé­lagsins Empenna­ge Inc. við Kaupþing. Félagið var skráð á Panama og hélt utan um kauprétt starfsmanna Landsbankans. Hljóðaði ábyrgðin upp á 6,8 milljarða króna.

Talin hafa brotið gegn lánareglum bankans

Aðalmeðferð í máli sér­staks sak­sókn­ara gegn Sig­ur­jóni Árna­syni, fyrr­ver­andi banka­stjóra Lands­bank­ans, og Sig­ríði El­ínu Sig­fús­dótt­ur, fram­kvæmda­stjóra fyr­ir­tækja­sviðs bank­ans, fór fram fyr­ir Héraðsdómi Reykja­vík­ur í dag. Tel­ur ákæru­valdið að veit­ing ábyrgðarinnar, sem af­greidd­ var á milli funda lána­nefnd­ar, hafi brotið í bága við lána­regl­ur bank­ans og seg­ir í ákæru að eng­ar und­ir­liggj­andi ábyrgðir hafi verið fyr­ir lán­un­um. Sigurjón og Sigríður Elín bentu þó ítrekað á að hlutabréfin í bankanum, sem félagið hélt um, hafi legið til ábyrgðar, og Kaupþing þar með getað gengið að þeim.

Í fyrri frétt mbl.is af réttarhöldunum var greint frá því að Sigurjón sagði fyrir dómi í dag að félögin hefðu verið stofnuð á Panama vegna þess að það hefði verið ódýrasta fyrirkomulagið. Þá hefði þessi leið verið farin í því skyni að spara bankanum pening, þar sem Panamafélögin keyptu bréfin á sínum tíma á því gengi sem starfsmenn áttu rétt á samkvæmt kaupréttarsamningi, til þess að selja bankanum síðar þegar kauprétturinn varð virkur. Komst bankinn þannig undan því að kaupa þau á dýrara markaðsgengi. 

Húmor í gangi

Ingimundur var stuttorður þegar hann svaraði tölvupósti Tryggja og sagði einfaldlega: „Félagið heldur utan um kauprétt starfsmanna.“ Skýrsla var tekin af Ingimund í dag og sagði hann póstinn hafa verið sendan seinni partinn á föstudegi og einhver húmor hafi verið í gangi. „Þegar ég sé póstinn rifjast þetta upp,“ sagði hann.

Þá sagðist Tryggi fyrir dómi í dag hafa sent póstinn þar sem engar upplýsingar voru um félagið í skráningarkerfi Landsbankans, Mímir. Sigríður Elín benti þó fyrr á að í kerfinu væru hráar upplýsingar og því ekki fullkomin skráning en líkt og að framan greinir segir í ákæru að lánveitingin hafi brotið í bága við lánareglur bankans og ekki afgreidd með formlega réttum hætti. Benti ákæruvaldið þ.á.m. nokkrum sinnum á að ekki hefði verið getið um trygginguna, þ.e. bréfin sjálf, í skráningunni.

Ákæran vekur furðu

Sigríður Elín sagði ákæruna vekja furðu og undrun því misskilnings gæti um lánareglur bankans. „Þetta er beint og eðlilegt framhald að því að veita starfsmönnum rétt til að kaupa hlutabréf á fyrirfram ákveðnu gengi og því ekki um hefðbundin lán að ræða auk þess sem þarna eru augljósar ábyrgðir,“ sagði hún. „Þetta er sett upp til þess að tryggja efndir á samningnum,“ sagði Bragi Gunnarsson, fyrrverandi lögfræðingur Landsbankans, við skýrslutöku í dag og staðfesti að því leyti orð Sigríðar Elínar og benti á að bankinn ætti þarna bréfin í gegnum félagið í stað þess að eiga þau sjálfur vegna þess að hömlur eru þar á.

„Þetta sneri að vörnum bankans og við vorum að reyna að minnka áhættu bankans,“ sagði Sigurjón þegar dómari spurði hann hvort hann hefði einhverju við skýrslutökur dagsins að bæta.

Frétt mbl.is: „Vorum að draga úr áhættu“

Sigurjón Þorvaldur Árnason í héraðsdómi í dag
Sigurjón Þorvaldur Árnason í héraðsdómi í dag mbl.is/Þórður
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK