Úr spurningaleik í samfélagsmiðil?

Þorsteinn B. Friðriksson framkvæmdarstjóri Plain Vanilla.
Þorsteinn B. Friðriksson framkvæmdarstjóri Plain Vanilla. mbl.is/Ómar Óskarsson

Leikjafyrirtækið Plain Vanilla mun kynna til sögunnar á næstu mánuðum stóra uppfærslu á spurningaleiknum Quiz Up sem sló í gegn þegar hann kom út á síðasta ári. Þorsteinn B. Friðriksson, forstjóri fyrirtækisins, segist binda miklar vonir við uppfærsluna. 

„Við ætlum að auka áhersluna á samfélagsnetshluta leiksins og hvernig fólk tengist í gegnum Quiz Up. Það er mjög áhugavert með Quiz Up að við höfum fengið fullt af bréfum frá útlöndum þar sem fólk segir frá því hvernig það hefur kynnst öðru fólki í gegnum leikinn. Okkur finnst það mjög spennandi og leggjum nú áherslu á að virkja samfélagshlutann enn frekar í næstu uppfærslu,“ segir Þorsteinn í samtali við mbl.is.

Í Quiz Up stendur sá möguleiki til boða að spjalla við aðra notendur. Gerir það fólki kleift að kynnast öðrum með svipuð áhugamál á nokkuð auðveldan hátt. Að sögn Þorsteins hefur sá möguleiki verið notaður töluvert meira en búist var við.

„Við sáum þetta alveg fyrir í upphafi og höfðum þetta þess vegna inni í leiknum. En það kom okkur vissulega á óvart hversu mikið fólk hefur nýtt sér þetta. Það er alveg ótrúlega spennandi fyrir fyrirtæki eins og okkar að breytast kannski úr því að vera bara spurningaleikur í samfélagsmiðil.“

Vilja alltaf bæta við sig hæfileikaríku fólki

Um helgina vakti það athygli að Quiz Up auglýsti lausar fjórar stöður til umsóknar í heilsíðuauglýsingu í Fréttablaðinu. Aðspurður hvort að það þýði aukin umsvif segir Þorsteinn fyrirtækið alltaf í leit að hæfileikaríku fólki. „Við erum náttúrlega búin að stækka alveg gríðarlega mikið undanfarna mánuði. Fyrir um ári vorum við held ég tíu en núna erum við áttatíu. Við viljum alltaf bæta við okkur hæfileikaríku fólki.

Plain Vanilla tók þá ákvörðun að vera með alla sína starfsemi á Íslandi og starfa næstum því allir starfsmenn fyrirtækisins á höfuðstöðvum þeirra á Laugavegi. 

Auglýsingin sem birtist um helgina var öll á ensku. Þorsteinn segir að þó svo að starfsemin sé á Íslandi sé Plain Vanilla alþjóðlegt fyrirtæki sem stundum þurfi að ráða í mjög sérhæfð störf. 

„Við leitum til Íslendinga eins og við getum þar sem við erum með starfsemina hér. Það hefur samt aukist að við ráðum erlent fólk sem flyst til Íslands,“ segir Þorsteinn og áætlar að erlendir starfsmenn Plain Vanilla séu tíu.

„Það er bara frábært fyrir alla að hafa erlenda starfsmenn með þeim íslensku. Við erum að keppa á alþjóðlegum samkeppnismarkaði og erum alþjóðlegt fyrirtæki,“ segir Þorsteinn.

Notendurnir 26 milljónir

Tæpu ári eftir að Quiz Up var gefinn út hafa 26 milljónir náð í leikinn og skráð sig. Þorsteinn er ánægður með viðbrögðin.

„Þetta hefur gengið alveg vonum framar og með þennan stóra notendahóp höfum við einstök tækifæri til þess að koma alls konar nýjungum á framfæri. Við getum vonandi notað þennan hóp í nýjungarnar og stækkað enn frekar í kjölfarið.“

Spurningaleikurinn QuizUp hefur notið mikilla vinsælda.
Spurningaleikurinn QuizUp hefur notið mikilla vinsælda. mynd/Plain Vanilla
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK