Færri og sterkari útibú

Höskuldur Ólafsson, bankastjóri Arion banka.
Höskuldur Ólafsson, bankastjóri Arion banka. mbl.is/Árni Sæberg

Fækkun bankaútibúa hér á landi er í samræmi við það sem er að gerast út um allan heim í viðskiptabankastarfsemi, að sögn Höskuldar H. Ólafssonar bankastjóra Arion banka. „Það er að verða ákveðin umbylting í þessari þjónustu, afgreiðsluleiðirnar eru að færast á netið og í símann. Bankinn er ekki bara kominn inn á heimilin heldur allstaðar þar sem fólk er. Það verður áfram þörf á útibúaþjónustu en í miklu minna mæli en áður.“

Í Morgunblaðinu í gær kom fram að Arion banki hefur lokað 16 útibúum á síðustu fimm árum.

„Þrátt fyrir lokun útibúa höfum við verið að efla stærri einingar á ákveðnum svæðum. Við erum t.d. með mjög öfluga kjarnastarfsemi í Borgarnesi, á Selfossi og á Akureyri. Það er búið að færa mikið af ákvörðunarvaldi úr höfuðstöðvunum út á þessi svæði sem eru þá skipulögð þannig að þau eiga að geta sinnt sínu umdæmi betur.“

Nýlega tilkynnti Arion banki lokun útibús á Hólmavík. Næstu útibú eru í töluverðri fjarlægð, í Búðardal og Borgarnesi.

„Við erum ekki að skilja byggðarlagið eftir bankalaust, það er önnur bankaafgreiðsla á staðnum svo ef fólk þarf á beinni þjónustu að halda þá er hún til staðar. En samfélagið ber ekki uppi tvær afgreiðslur hlið við hlið. Við erum að reka sambærilegar afgreiðslur á öðrum stöðum þar sem eru ekki önnur bankaútibú og þá erum við kannski tregari til að loka og erum ekki að gera það,“ segir Höskuldur.

Hagnaður Arion banka á fyrri helmingi ársins 2014 nam 17,4 milljörðum króna, sem að sögn Höskuldar er mjög góð afkoma. Er svo kostnaðarsamt að halda úti litlum útibúum sem eru kannski með tvo starfsmenn?

Bera sig ekki sjálf

„Það er engin afkoma af þessu og þetta ber sig ekki sjálft. Kostnaðurinn í bankanum er of mikill og það þarf að vinna í því og þetta er bara ein af þeim aðgerðum sem er gripið til í þeim efnum. Við erum alltaf að skipuleggja okkur til framtíðar og getum ekki bara byggt á stöðunni í dag eða fortíðinni. Það er frekar að grundvöllur þessara afgreiðslna veikist svo það er betra að reyna að þjappa þeim saman á færri staði og hafa þær sterkari,“ svarar Höskuldur.

Hann útilokar ekki að bankinn missi viðskiptavini vegna lokunar útibúsins á Hólmavík. Hann segist ekki geta svarað því hvort útibúum muni fækka enn frekar. „Við erum með þetta í ágætu jafnvægi núna.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK